Á undanförnum misserum hefur “ógeðsleg fýla” oft vakið athygli ferðamanna sem heimsækja Ólafsfjörð. Það ætti ekki að þurfa að vera umdeilt, að allt of oft kemur óþægileg lykt frá starfsemi Norlandia í Ólafsfirði. Trölli.is fékk fyrirspurn frá lesanda s.l. sumar sem sjá má hér.

Í framhaldinu hafði Trölli.is samband við Heilbrigðiseftirlitið og varpaði fram nokkrum spurningum um ólyktina sem oft finnst í Ólafsfirði. Hér á eftir fara spurningarnar Trölla og svör Sigurjóns Þórðarsonar heilbrigðisfulltrúa Norðurlands vestra.

Hvað veldur lyktinni?
Lykt er óhjákvæmilegur fylgifiskur fiskþurrkunar og ef vel teks til við verkun, þá er það einkum lykt af köfnunarefnis- eða amínsamböndum, sem berst að vitum fólks. Flestum Íslendingum finnst sú lykt ekki alslæm, en hún er af svipuðum meiði og sæt lykt af harðfiski. Þess ber að geta að smekkur fólks er misjafn. Það sem einum finnst vond illa þefjandi fýla verða aðrir ekki varir við. Eitt besta dæmið um það, er að lyktin af heitavatninu víða á Íslandi fer mjög fyrir brjóstið á sumum ferðamönnum, á meðan landinn finnur ekki umrædda lykt.

Ef illa tekst til við verkun, þá berst frá fiskþurrkun súr illur daunn af rotnandi fiski. Um er að ræða óþef vegna einkum brennisteins efnasambanda, frá vexti örvera sem brjóta niður fiskholdið.

Örverur þurfa talsverðan raka til þess að geta vaxið. Áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir óþef, er að þurrkun gangi það hratt fyrir sig, að örveruvöxtur nái sér ekki á strik. Aðstæður til þurrkunar eru jafnan erfiðari þegar hlýtt er í veðri, en að vetri til. Markast það af því að rakainnihald kalds lofts er mjög lítið á meðan það er jafnan talsvert mikið á Íslandi á sumrin. Mikilvægt er því að draga úr framleiðslu þegar rakainnihald lofts er mikið þ.e. hlaða jafnan minna af fiski á sumrin inn í þurrkklefa, en gert er á veturna.

Er verið að nota útfjólublátt ljós?
Nei mengunarvarnirnar eiga fyrst og fremst að felast í því að hraða þurrkun sem mest, til þess að koma í veg fyrir ólykt myndist. Óson eða O3 er notað til mengunarvarna, en það er hvarfgjarnt og brýtur upp lyktarsterk efnasambönd og eyðir bakteríum. Þegar óson kemst í snertingu við fiskholdið dregur það verulega úr vexti rotbaktería sem valda lyktar menguninni. Einnig er þvottur á reyknum þ.e. gufa frá þurrkklefum er leidd í gegnum vatnsbað áður en hún fer út í andrúmsloftið. Almenn góð þrif og góð meðferð hráefnis skiptir afar miklu máli í að bæta lyktar mengun frá fiskvinnslum.

Hvernig fara mælingar fram?
Mælingar á lykt fara fyrst og fremst fram með skynmati þ.e. á styrkleika og óþægindum lyktar. Ekki er til neitt handhægt mælitæki eða skali á styrk eða hvað sé óþægileg lykt. Einn af þeim þáttum sem má bæta í eftirliti, er að koma á hlutlægu og reglubundnu skynmati á lyktina. Annar mikilvægur þáttur sem má augljóslega bæta er að koma á viðbragðs- og samskiptaáætlun vegna kvartana og eða ólyktar.

Nauðsynlegt er að tryggja að ábendingar berist hratt og vel á rétta staði, þannig að hægt sé að bregðast við þeim með ákveðnum hætti. Sömuleiðis er mikilvægt að Það berist síðan svör til þeirra sem kvarta. Heilbrigðiseftirlitið hefur fengið kvartanir frá þremur aðilum í sumar og eru skýringarnar þær, að ósonbúnaður hafi bilað á þeim árstíma sem aðstæður til þurrkunar eru hve erfiðastar.

 

Norlandia í Ólafsfirði

 

Eru viðurlög?
Já Heilbrigðisnefnd getur beitt viðurlögum, ef fyrirtæki starfa ekki í samræmi við starfsleyfisskilyrði, en þau eru áminning, dagsektir og síðan að takmarka starfsemi fyrirtækja. Samkvæmt stjórnsýslu lögum, þá ber heilbrigðisnefnd að beita vægustu úrræðum hverju sinni til þess að ná fram markmiðum laganna. Um er að ræða löglega starfsemi á skipulögðu atvinnusvæði, sem varin er af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Heilbrigðisnefnd getur ekki hafnað útgáfu starfsleyfis en getur þrengt skilyrði og beitt úrræðum ef ekki er farið að þeim.

Hvað má þetta gerast oft áður en fyrirtækið er stoppað?
Til þess að stjórnvöld beiti ströngustu viðurlögum, þá þarf að vera sýnt að önnur vægari úrræði gagnist ekki og að hlutlægt mat liggi til grundvallar, í þessu tilfelli hlutlægt skynmat.

Í sjálfu sér þá þykir mér spurningin ekki vera tímabær í tilfelli Norlandia, þar sem forsvarsmenn Norlandia hafa tekið vel í kvartanir sem borist hafa í sumar og eru að bregðast við þeim.

Af fjölda kvartana til Heilbrigðiseftirlitsins á liðnum árum má ráða að það hafi verið þokkaleg sátt um ástandið sl. 6 ár, en vissulega hafa borist s.s. í sumar háværar kvartanir.

Hvaða úrbætur eru í gangi?
Hafist var handa í sumar við að lagfæra osóntæki og yfirfara búnað í þvottaturni.

Heilbrigðiseftirlitið hefur farið fram á að unnin verði úrbótaáætlun sem feli í sér úrbætur á þeim þáttum sem nefndir hafa verið hér að framan þ.e. á ósonbúnaði, viðbragðsáætlun við kvörtunum auk þess sem að gert verði hlé á starfseminni yfir hásumar, þegar aðstæður til þurrkunar eru hve erfiðastar. Skýr viðbragðsáætlun þarf að fela í sér að tryggja betra rekstraröryggi á mengunarvarnabúnaði og draga strax úr framleiðslu ef búnaður á borð ósontæki bila.

 

Sjá einnig úr fundargerð 567. fundar Bæjarráðs Fjallabyggðar:

13. 1808017 – Loftmengun í Ólafsfirði
Lagt fram erindi Júlíusar Kristins Magnússonar varðandi loftmengun frá fiskvinnslufyrirtæki við höfnina í Ólafsfirði þar sem hann óskar upplýsinga um hvað verið sé að gera í málinu.

Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi Norðurlands vestra hefur haft aðkomu að málinu og telur að búið sé að koma í veg fyrir ólykt sem var vegna bilunar í hreinsibúnaði fyrirtækisins.

Heilbrigðisfulltrúi hefur haldið bæjarráði og starfsmönnum sveitarfélagsins upplýstum um málið.

Bæjarráð fagnar því að búið sé að koma hreinsibúnaði í lag.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir