Heilbrigðiskerfið er undir miklu álagi og fólk er hvatt til að gæta að smitvörnum.
Þótt öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi verið aflétt hér á landi 25. febrúar síðastliðinn er faraldur Covid-19 ekki genginn yfir. Fjöldi smita greinist dag hvern og heilbrigðiskerfið er undir miklu álagi. Almenningur getur haft mikil áhrif á útbreiðslu smita með hegðun sinni. Fólk er því hvatt til að gæta vel að einstaklingsbundnum sýkingavörnum.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra 22. febrúar sl. fjallar hann um þróun faraldursins og þá sýn að helsta leiðin út úr honum sé að hér skapist það gott samfélagslegt ónæmi gegn kórónaveirunni að það hægi á faraldrinum og að hann stöðvist að lokum. Sóttvarnalæknir segir ekki óvarlegt að ætla að til þess þurfi um 80% landsmanna að hafa smitast sem miðað við gefnar forsendur gæti orðið síðari hluta marsmánaðar. Nýgengi smita er enn sem komið er hátt í samfélaginu og það hefur víða áhrif. Mönnun heilbrigðiskerfisins hefur verið og er enn mikil áskorun vegna veikinda starfsfólks og gildir það jafnt um heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili, heimahjúkrun og skylda þjónustu.
Gætum að sóttvörnum og sýnum ábyrgð í samskiptum
„Við þurfum öll að sýna ábyrgð með hegðun okkar þar til bylgja faraldursins gengur yfir“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Mikilvægt sé að fólk viðhafi varúð og sýni tillitssemi í samskiptum við einstaklinga sem teljast til viðkvæmra hópa, s.s. aldraða og fólk með bælt ónæmiskerfi. „Ég hvet fólk til leggja þannig sitt af mörkum til að vernda viðkvæma hópa og verja heilbrigðiskerfið fyrir miklu álagi.“
Mynd: Stjórnarráðið