Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN), Orkustofnun og Rafbílastöðin hafa síðastliðið ár unnið að greiningarvinnu á bifreiðaflota stofnunarinnar fyrir orkuskipti og uppbyggingu hleðsluinnviða. Bifreiðafloti Heilbrigðisstofnunar Norðurlands telur ríflega 40 bifreiðar og þjónustar Norðurlandið, allt frá Blönduósi í vestri til Þórshafnar á Langanesi í austri.

Flotastyring

Ökuriti í allar bifreiðar HSN 

Árið 2023 hófst verkefnið með innleiðingu á greiningarbúnaði í allar bifreiðar stofnunarinnar til gagnasöfnunar, en það er eitt  af fyrstu skrefum  til að ná yfirsýn og geta unnið markvisst að sjálfbærni í notkun flotans. Yfir eitt ár söfnuðu bílarnir raungögnum með Geotab flotastjórnunarkerfinu sem er ökuriti sem mælir akstur bílanna og hvar þeir dvelja mest. Þetta gaf nákvæma og góða yfirsýn yfir notkunarmynstur bílaflotans og niðurstöður um hvar ætti að byggja upp hleðsluinnviði út frá raunhleðsluþörf.  

Mikill fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur 

Frá fyrsta vetrardegi 2023 til sumardagsins fyrsta 2024 var óvenju kalt á Íslandi og þá sérstaklega á Norðurlandi. Þrátt fyrir krefjandi vetraraðstæður, sýndu niðurstöður gagnagreiningar fram á skýran fjárhagslegan og umhverfislegan ávinning til skemmri og lengri tíma af orkuskiptunum. Að auki sýndu niðurstöður fram á litla sem enga röskun á starfsemi við útskipti bensínbíla yfir í rafbíla og tugmilljóna sparnað í beinum kostnaði við rekstur bifreiðanna. Gögnin sýndu þannig 55%-76% sparnað í akstri rafbíls miðað við bensínbíl þó kílómetragjald rafbíls sé tekið með í útreikningana, og þá var einnig verulegur ávinningur með minni útblæstri og öðrum óbeinum kostnaði sem fylgir rekstri jarðefnaeldsneytisbifreiða.  

Samningur um Flotastjórnun til framtíðar

Rafbílastöðin og HSN hafa nú í kjölfar af þessum niðurstöðum undirritað samkomulag með Rafbílastöðinni undir yfirheitinu Flotastjórnun til framtíðar sem felur í sér vinnu við orkuskipti, innviðauppbyggingu og markvissar aðgerðir til að stuðla að vistvænum akstri. Stofnunin hefur nú fullkomna yfirsýn yfir bifreiðaflota fyrirtækisins og raungagnasöfnun úr Geotab, ásamt reynslu mun tryggja bestu ákvörðunartöku hverju sinni fyrir árangursrík orkuskipti. Lögð verður áhersla á að hafa jákvæð áhrif á akstursþætti sem geta minnkað kostnað, m.a. lækkað útblástur og aukið öryggi í umferð, en því fylgir t.d mikill kostnaðar- og umhverfisávinningur bara að minnka lausagang bifreiða innan flotans. Samhliða verkefninu hefur HSN skipt átta bifreiðum út fyrir rafmagnsbíla með góðum árangri.

Á Loftslagsdeginum 2024 sem fór fram 28. maí síðastliðinn flutti Eyrún Gígja Káradóttir verkefnastjóri Orkuseturs áhugavert erindi um orkuskipti þar sem hún fjallaði meðal annars um þetta verkefni. Hægt er að horfa á erindið í gegnum þennan hlekk.

Myndir og heimild/HSN