Komið verður á formlegu samstarfi ríkis og sveitarfélaga um heilsueflingu aldraðra, stefnumótun um heilsueflingu og virkni verður liður í sóknaráætlunum landshluta, hlutverk heilsugæslunnar á þessu sviði verður aukið, unnið verður að markvissri fræðslu fyrir aldraða um heilsueflingu sömuleiðis verður stuðlað að betra heilsulæsi aldraðra. Þetta eru dæmi um aðgerðir sem ráðist verður í samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun um heilsueflingu aldraðra sem unnin var af starfshópi á vegum heilbrigðisráðherra.

Aðgerðaáætlunin er byggð á skýrslu starfshóps sem skilaði ráðherra tillögum í byrjun þessa árs um fyrirkomulag samstarfsverkefna sem gætu stuðlað að heilsueflingu aldraðra og gert öldruðum kleift að viðhalda lengur færni og heilsu, aukið þannig lífsgæði og bætt getu fólks til að búa lengur á eigin heimili.

Áætlunin er byggð upp í kringum sex svið, undir hverju þeirra eru tilgreindar nokkrar aðgerðir og sett fram mælanleg markmið til að meta árangur. Sviðin eru eftirtalin:

  • Samstarf um heilsueflingu
  • Gögn, greining og lýðheilsuvísar
  • Fræðsla og heilsulæsi
  • Virkni og vellíðan
  • Næring
  • Aðbúnaður og ytra umhverfi

Heilbrigðisráðuneytið leiddi vinnu hópsins sem vann aðgerðaáætlunina. Auk starfsmanna þess sátu einnig í hópnum fulltrúar félagsmálaráðuneytisins, embættis landlæknis, Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og Sambands íslenskra sveitarfélaga.


Mynd/pixabay