Í vikunni fóru 2 stk Löndunarsíur frá SR-Vélaverkstæði á Siglufirði til Eskju á Eskifirði.

Eskja starfrækir nú fimm skip, fiskimjölsverksmiðju og eina háþróuðustu og skilvirkustu uppsjávarvinnslu sem fyrirfinnst í Norður-Atlantshafi.

Um er að ræða tæki sem voru gerð hjá SR-Vélaverkstæði árið 1998 og voru upphaflega með undirstöðum úr „svörtu“ stáli sem farið var að ryðga.

Síurnar sjálfar, sem eru nokkuð stór tæki, voru á sínum tíma smíðaðar úr ryðfríu stáli og sér ekki á þeim eftir þessi 23 ár sem liðin eru frá smíði þeirra.

Undirstöðurnar voru nú endurbyggðar úr ryðfríu stáli ásamt öryggisgrindum sem eiga eflaust eftir að endast vel um langa framtíð.

Auk þessa var smíðuð burðargrind fyrir síurnar sem verða að lokum í u.þ.b. 5 metra hæð frá gólfi verksmiðjunnar á Eskifirði.


Löndunarsía frá SR-Vélaverkstæði / skýringarmynd af vef srv.is

Ljósmyndir: aðsendar