Ríkisstjórnin ákvað nýlega að veita eina milljón króna til gerðar heimildarmyndar um heimkomu handritanna en í apríl næstkomandi verða 50 ár liðin frá því Íslendingar fengu afhent fyrstu handritin frá Danmörku eftir tæplega 70 ára baráttu fyrir því að þeim yrði fundinn varðveislustaður á Íslandi.

Af þessu tilefni hyggst Ríkisútvarpið sýna nýja heimildarmynd um þennan merka viðburð.

Myndin er framleidd af Ríkisútvarpinu en gerð fyrir tilstuðlan Vina Árnastofnunar, áhugamannafélags sem vinnur að framgangi stofnunarinnar og kynningu á hlutverki hennar í samtímanum. Gert er ráð fyrir að myndin verði allt að 50 – 60 mínútur og sýnd að kvöldi 21. april 2021.

Þá er ráðgert að myndin verði boðin til sýninga erlendis.

Heimild: stjornarradid.is
Mynd: handritinheima.is