„Heimsmet í skerðingum“ – kjör lífeyrisþega umfjöllunarefni á trúnaðarráðsfundi Eflingar
Kjör lífeyrisþega voru til umfjöllunar á fjölmennum trúnaðarráðsfundi í gær 8. apríl. Sérstakir gestir fundarins voru Eflingarfélagar, 55 ára og eldri.
Á fundinum kynnti Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, óútkomna skýrslu um kjör lífeyrisþega en Stefán hefur verið að vinna að stórri úttekt á lífeyrissjóðskerfinu um nokkurt skeið. Í kynningu sinni fjallaði Stefán sérstaklega um hvernig samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða mótar tekjur ellilífeyrisþega og öryrkja og hvernig ofnotkun skerðinga í almannatryggingkerfinu stýrir lágtekjuvanda lífeyrisþega. Hann færði rök fyrir því að bæði frítekjumark almannatrygginganna og hámark lífeyris væri allt of lágt. Raunar er það svo að útgjöld íslenska ríkisins vegna ellilífeyris eru ein þau minnstu sem þekkjast meðal þróaðra vestrænna ríkja. Þegar kemur að velferðarkerfinu í heild sinni er ljóst að Ísland er á meðal þeirra landa innan OECD sem ver hvað minnstum hluta af landsframleiðslu til velferðarmála. Þar er Ísland langt á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum.
Þrátt fyrir þessi litlu útgjöld sem ríkið hefur af lífeyrisgreiðslum, hefur sú öfuga þróun átt sér stað að skattbyrði á lífeyrisþega hefur stóraukist síðan 1990. Í langflestum OECD ríkjum eru sérstakar skattaívilnanir hjá lífeyrisþegum, en á Íslandi er ekkert slíkt að finna. Hinsvegar fær stóreignafólk, sem borgar sér fjármagnstekjur, gríðarlegar skattaívilnanir enda er 22% skattur af fjármagnstekjum hátekjufólks en 47% skattur sem vinnandi fólk og lífeyrisþegar þurfa að borga af sínum hæstu tekjum. Þeir hópar sem verst verða fyrir barðinu á skerðingum almannatrygginga eru lágtekjufólk, konur, öryrkjar og innflytjendur.
Í umræðuhópum að loknu erindi Stefáns lýstu félagsmenn Eflingar vanþóknun sinni á fyrirkomulagi skerðinga í íslenska lífeyrissjóðakerfinu og ræddu mögulegar leiðir til úrbóta og hvernig verkalýshreyfingin geti beitt sér í baráttunni gegn þessu mikla misrétti.
Erindi Stefáns Ólafssonar í heild sinni má sjá hér
Glærur Stefáns má nálgast hér: Kjör lífeyrisþega – Pensioners’ incomes
Mynd/pixabay