Undanfarið hafa verið heitar umræður á facebook um gamla kirkjugarðinn á Siglufirði. Fólki finnst almennt umhirðu garðsins verulega ábótavant. Í umræðunni hafa fallið orð eins og: “Mér finnst bæjarfélagið eigi að sjá um þetta”, “Forfeður okkar greiddu sinn skatt þ.e. kirkjugarðsgjöld sem væntanlega eiga að dekka slátt á grasi og illgresi í kirkjugarðinum”, “Þetta er ömurlegt”, “Dapurlegt”, “Bæjarstjórn þarf að taka á málinu og finna úrræði”.
Þetta vakti athygli okkar hér hjá trolli.is og var ákveðið að kanna málið.
Fréttamaður hafði fyrst samband við Siglfirðinginn Hermann Jónasson sem er reynslubolti í útfara- og kirkjugarðamálum og rekur útfararstofu í Reykjavík. Hermann er einnig gjaldkeri í sóknarnefnd Siglufjarðarprestakalls. Í samtalinu við Hermann komu fram áhugaverð atriði sem vert er að koma á framfæri.
1. Hlutverk sveitarfélagsins er að útbúa garðinn í upphafi, með stígum og girðingarefni. Eftir það er garðurinn ekki í umsjá sveitarfélagsins, punktur.
Setningin: “Bæjarstjórn þarf að taka á málinu og finna úrræði” er því alfarið byggð á misskilningi, þetta kemur bænum einfaldlega ekkert við lengur.
2. Kirkjugarðar eru reknir fyrir fé sem kemur frá ríkinu og við almenningur borgum sem kirkjugarðsgjald. Í hruninu 2008 gerðist það að ríkið ákvað að halda eftir 40% af þessu gjaldi, því það þurfti jú að bjarga þjóðarskútunni. Núna 10 árum síðar er þetta óbreytt og þjóðarskútan siglir fulla ferð á meðan sumir kirkjugarðar líða skort. Við þurfum kannski að minna þingmennina okkar á að leiðrétta þetta.
Í samtalinu við Hermann kom einnig fram að það er ekki fjárskortur sem veldur því að umhirðan á Siglufirði er eins og hún er. Búið er að fjárfesta í vönduðum sláttugræjum til að hirða garðana, það vantar bara mannskap til að vinna verkið.
Annað mjög athyglivert sem kom fram var að þeir sem sjá um garðinn mega ekki fara t.d. inn á afgirt leiði, ekki einu sinni laga veggi eða krossa sem eru að hrynja. Umsjónaraðili kirkjugarða sér bara um stíga, girðingar og þess háttar, en má hreinlega ekki lögum samkvæmt snerta leiði eða veggi kringum þau.
Orðrómur um að það eigi að láta gamla kirkjugarðinn á Siglufirði fara í órækt er byggður á misskilningi, það á að halda garðinum snyrtilegum.
Næst var haft samband við Júlíu Birgisdóttur sem er meðhjálpari og kirkjuvörður við Siglufjarðarkirkju. Þar kom fram að auglýst var á sínum tíma eftir aðila til að taka að sér að slá garðinn, en enginn sótti um. Í framhaldinu var haft samband við verktaka á Dalvík, sem sér um að slá kirkjugarðinn í Ólafsfirði, og standa vonir til að samkomulag náist við þann aðila á næstu dögum. Kannski var farið of seint af stað með að finna umsjónar-aðila þetta árið, en það gerist ekki aftur.
Nýi kirkjugarðurinn á Siglufirði lítur mun betur út eins og þessar myndir sýna.
Fréttamaður hafði einnig samband við Sr. Sigríði Mundu sóknarprest í Ólafsfirði til að forvitnast um kirkjugarðinn þar.
Þau fengu sjálfboðaliða til að slá garðinn í byrjun sumars, en síðan hefur verktaki frá Dalvík séð um að slá garðinn á ca 10 daga fresti.
Texti og myndir: Gunnar Smári Helgason