Þann 24. ágúst 2019 tekur ungur Dalvíkingur, Arnar Valur Kristinsson þátt í Reykjavíkur maraþoni til styrktar Pieta samtökunum. Arnar Valur ætlar að hlaupa hálf maraþon, 21 km. og nú þegar hafa 16.000 kr. safnast í áheit hjá honum.
Það var bróðir Arnars Vals sem hóf máls á því í fyrrahaust að fá hann sem hlaupafélaga, kom það honum á óvart því bróðir hans hafði ekki verið mikið fyrir hreyfingu og var fljótur að slá til því hann hefur alltaf haft gaman af því að hlaupa. Arnar Valur hefur þó aðeins einu sinni tekið þátt í víðavangshlaupi, var það Þorvaldsdalsskokkið sem er alltaf fyrstu helgina í júlí ár hvert og er 25 km. langt. Einnig var hann sem unglingur í frjálsum íþróttum og hljóp þar mikið.
Hann ákvað að styrkja Pieta samtökin vegna þess að hann þekkir það á eigin skinni hvernig það er að missa ættingja og vini sem framið hafa sjálfsvíg eða hafa reynt það. Þegar hann hafði kynnt sér starf Pieta samtakanna fannst honum ekkert annað koma til greina en að styrkja þau með því að hlaupa í þeirra nafni og styrkja þannig við starfsemi þeirra.
Heita má á Arnar Val Kristinsson: HÉR
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Samtökin opnuðu þjónustu sína vorið 2018 og eru með starfsemina að Baldursgötu 7 í Reykjavík. Til samtakanna geta leitað einstaklingar og aðstandendur sem vilja fá hjálp og viðtal hjá fagfólki. Lagt er upp úr því að bjóða upp á rólegt og notalegt umhverfi fyrir skjólstæðinga. Starfsemin er rekin að fyrirmynd og eftir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi.
Meðferð Pieta er mótuð af samúð og virðingu fyrir hverjum þeim sem til þeirra leita og áhersla lögð á lausnir og uppbyggingu. Miðað er að því að leysa yfirstandandi krísu með viðkomandi og glæða von um líf sem er þess virði að lifa. Kennd eru ýmis bjargráð til að fást við erfiðar tilfinningar ásamt streitu- og tilfinningastjórnun og samskiptafærni. Gefinn er kostur á allt að 15 viðtölum, en þörfin er metin í hverju tilviki fyrir sig. Þegar við á er fjölskyldu og/eða nánustu aðstandendum boðið að taka þátt í meðferðinni, með það að markmiði að styrkja stuðningsnet einstaklingsins. Gefinn er kostur á allt að 5 viðtölum fyrir aðstandendur.
Meðferðin er skjólstæðingum að öllu gjaldfrjáls.
Mynd: aðsend