Umboðsmaður barna, embætti landlæknis, Heyrnar- og talmeinastöð ríkisins og Vinnueftirlitið stóðu nýverið að málþingi í tilefni af alþjóðlegum degi heyrnar þann 3. mars. Á málþinginu var sjónum beint að hljóðvist í umhverfi barna og var sérstaklega rætt um hljóðvist í skólum. Litið var til hljóðmælinga sem Vinnueftirlitið hefur framkvæmt, sem sýna að bæta þarf hljóðvist í skólum, á öllum skólastigum. Einnig kom fram að ómtími í opnum rýmum, svo sem matsölum, íþróttasölum og stórum kennslurýmum er víðast hvar of langur, sem magnar hávaða og getur skaðað heyrn barna og starfsfólks. Þá sýna rannsóknir að kennarar upplifa hávaða sem algengasta álagsþáttinn í starfi sínu.
Af þessu tilefni vill umboðsmaður barna skora á sveitarfélög landsins að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að bæta hljóðvist í leik- og grunnskólum. Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013, eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og að lifa í heilnæmu og öruggu umhverfi.
Bréfið var tekið fyrir á 825. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar og var vísað til fræðslu- og frístundanefndar.
Fylgiskjöl: