Bergþór Morthens listakennari og Lára Stefánsdóttir skólameistari við Menntaskólann á Tröllaskaga voru stödd á Möltu í síðustu viku vegna fundar í stýrihóp Erasmus+ verkefnis sem kallast TRinE eða Telerobotics in Education sem við gætum þýtt sem Nærverur í námi. Með í verkefninu eru háskólar frá Austurríki, Grikklandi, Íslandi, Möltu og Þýskalandi ásamt grunnskóla á Möltu.

Markmiðið er að skoða hvernig má nýta nærverur í námi og kennslu og gera vef með leiðbeiningum og dæmum um notkun, Háskólarnir eru einnig að rannsaka notkunina og reikna með að birta greinar byggðar á þessu verkefni. Tekin hafa verið viðtöl við nemendur og kennara skólans og reynslunni miðlað.

Háskólarnir eru allir að nota nærverur í fyrsta skipti utan Háskólans á Akureyri sem hefur langa reynslu en það voru einmitt fulltrúar þeirra sem kynnti MTR fyrir þessum fínu verkfærum sem hafa nýst skólanum vel frá því síðla árs 2018.

Mynd/MTR