Vegna gríðarlega góðra viðbragða og umsagna af tónleikum hljómsveitarinnar Eik í Bæjarbíó 2 mars hefur verið ákveðið að bæta við tónleikum og föstudaginn 31. maí verður haldið á Græna Hattinn á Akureyri.
Þar munu upprunalegir liðsmenn hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar EIK rifja upp tímabilið frá 1975 til 1977, þegar hljómsveitin var upp á sitt besta, og leika lög af hljómplötunum Speglun frá 1976 og Hríslan og Straumurinn frá 1977, ásamt eldra efni, en báðar þessar plötur fengu mikið lof gagnrýnenda og unnenda góðrar tónlistar þegar þær litu dagsins ljós og var EIK meðal annars kosin hljómsveit ársins 1976 af Íslenskum blaðamönnum.
Enn eru allir liðsmenn EIK starfandi við tónlist og hafa verið önnum kafnir undanfarin ár við að setja fingraför sín á Íslenska tónlistarsögu. Og nú skal blásið til veislu, og til að gera útkomuna sem allra besta hafa bæst í hópinn 4 söngvarar og auka-hljóðfæraleikarar. Það verður enginn unnandi góðrar tónlistar svikinn af þessari tónlistarveislu EIKARINNAR.
EIK eru:
Ásgeir Óskarsson – Trommur
Tryggvi Hubner – Gítar
Lárus Grímsson – Hljómborð, saxófónn, Flauta, Gítar og söngur.
Pétur Hjaltested – Hammond orgel.
Haraldur Þorsteinsson – Bassi, söngur.
Söngvarar og auka-hljóðfæraleikarar eru:
Árni Sigurðsson – Söngur
Kristófer Jensson – Söngur
Unnur Birna Bassadóttir – Fiðla og söngur
Birgir Þórisson – Hljómborð
Hér má lesa sögu hljómsveitarinnar:
https://glatkistan.com/2015/01/19/eik/
Eik (1972-79 / 2000)
Hljómsveitin Eik er ein minnisstæðasta funkfusionsveit íslenskrar tónlistarsögu, fékk ævinlega frábæra dóma hvar sem hún spilaði en galt þess að starfa á tímabili svokallaðrar brennivínstónlistar og stuðs (eins og Dr. Gunni hefur skilgreint áttunda áratuginn), fyrir vikið átti sveitin sér lítinn en traustan aðdáendahóp sem mætti á tónleika til að hlusta en fór á mis við ballþyrstan almúgann sem vildi stuðtónlist til að dansa við.
Eik var stofnuð vorið 1972, kjarni sveitarinnar kom úr Pops en það voru þeir Ólafur Sigurðsson trommuleikari, Gestur Guðnason gítarleikari og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, fljótlega gengu til liðs við þá Þorsteinn Magnússon gítarleikari og Lárus Grímsson söngvari og flautuleikari og þannig skipuð kom Eikin fyrst fram opinberlega um haustið 1972 og byrjaði að spila sína þungu og frumsömdu tónlist.
Fyrst um sinn æfði sveitin í kjallara bílaþvottastöðvar í Sigtúni (síðar Sóltúni) og þar var margt um manninn oft á tíðum. Síðla vetrar 1973 millilentu tveir Bandaríkjamenn, Michael Stevens og Ari[?] á Keflavíkurflugvelli, á leið sinni til London til að slá í gegn á tónlistarsviðinu. Einhver vélaði þá til að staldra hér við og svo fór að þeir félagar gengu til liðs við hljómsveitina og hófu að syngja með þeim. Fjölmiðlar voru fljótir að þefa þá uppi og vöktu þeir mikla athygli, ekki síst fyrir að þeir voru dökkir á hörund en slíkt var frónbúum framandi á þeim tíma. Í dagblöðum birtust reglulega fréttir af „negrunum“ eins og þeir voru kallaðir, og Eikin fékk heilmikla athygli út á þá félaga, sérstaklega þegar sveitin fór að bæta við cover efni úr röðum bandarískrar soultónlistar á prógrammið. Svo fór þó eftir nokkrar vikur að þeim Ameríkunum var vísað úr landi með sólarhrings fyrirvara þar sem þeir fengu ekki atvinnuleyfi, urðu margir ósáttir við þau málalok og tengdu málið rasisma en þó féll sú umræða fljótlega um sjálfa sig þegar í ljós kom að þeir höfðu lifað hátt þær fáu vikur sem þeir dvöldu hér og skildu eftir sig háa hótelreikninga. Síðast heyrðist af þeim þegar þeir urðu ósáttir hvor við annan í París á leið til Spánar, og segir ekki meira af þeim Michael og Ara, eins og þeir voru hér kallaðir af Íslandsvinaæstum fjölmiðlum. Mannabreytingar urðu meiri í sveitinni þegar Árni (Jónsson) Sigurðsson kom inn sem söngvari og Lárus gat einbeitt sér að flautunni og nú einnig hljómborðunum en Eik varð fyrst íslenskra sveita til að nota synthesizera eða hljóðgervla í tónlistarsköpun sinni. Einnig hætti Gestur sem gítarleikari sumarið 1973.
Af Eikinni var því næst að frétta að þeir Ólafur og Haraldur fóru til Bretlands um haustið 1973 með efni til að leyfa þarlendum plötuútgefendum að heyra, á þeim tíma voru íslenskir tónlistarmenn fullir af meikdraumum erlendis og var Eikin einungis ein af mörgum sveitum sem vildu kynna sig erlendis, oft dugðu jákvæðar umsagnir erlendra gesta í garð íslenskra sveita til að koma af stað slíkum draumförum. Þeir félagar komu bjartsýnir til baka eftir mánaðarför en ekkert gerðist í kjölfarið. Sveitin spilaði hins vegar víða á þessu ári en var svolítið sér á parti sem fyrr segir, spilaði ekki vinsældablöðrutyggjópoppið eða brennivínstónlistina eins og fólk kallaði það heldur frumsamda þyngri tónlist sem ekki var hægt að dansa auðveldlega við. Ekki vantaði að tónlistin fékk frábæra dóma en hún var bara ekki það sem fólkið vildi.
Vorið 1974 fóru Eikar-liðar í nokkurra mánaða pásu til að hlaða batteríin og eins til að vinna eins og brjálæðingar til að fjármagna tækjakaup fyrir sveitina enda hafði sveitin ekki haft mikið upp úr spilamennskunni til þessa, bæði fyrir áhugaleysi skemmtistaðaeigenda vegna miður dansvænnar tónlistar sveitarinnar og svo vegna þess hversu fjölmenn sveitin var alltaf (fimm til sjö manna), og lítið féll í hlut hvers og eins. Eftir þessa pásu komu þeir aftur fram á sjónarsviðið en nú með tvenns konar prógramm, annars vegar með eigið efni sem að mestu var instrumental og hins vegar með dansvænna coverefni, það breytti því ekki að Árni söngvari hætti um haustið 1974 og tók sveitin sér aftur nokkurra vikna hlé á meðan þeir æfðu upp nýjan söngvara, Herbert Guðmundsson ungan og efnilegan söngvara sem hafði sungið með Stofnþeli, Tilveru og fleiri sveitum. Herbert söng með Eik í nokkra mánuði eða fram á vor 1975 þegar mikil sprenging varð í íslenska popptónlistarheiminum en þó aðallega í fjölmiðlum, þá var Pétur Kristjánsson söngvari Pelican rekinn úr sveit sinni og þeir Pelicanar réðu Herbert samstundis sem söngvara. Eik stóð því uppi söngvaralaus en fékk fljótlega Sigurð Kristmann Sigurðsson til liðs við sig, sem síðar var oft kallaður Siggi kjötsúpa eftir að hafa sungið lagið Íslensk kjötsúpa með samnefndri sveit. Söngvaraskiptin höfðu sett babb í bátinn hjá Eik því sveitin hafði verið á leið í hljóðver til að taka upp plötu en því varð að fresta um tíma, það varð þó úr að lokum að tveggja laga plata var tekin upp og gefin út af útgáfufyrirtækinu Demant um haustið. Hún fékk prýðilega dóma í Vísi, Dagblaðinu, Vikunni og Tímanum en varla nema sæmilega í Þjóðviljanum. Lögin rötuðu einnig á safnplötuna Peanuts sem Demant gaf út í kjölfarið.
Í upphafi árs 1976 urðu enn mannabreytingar þegar Ólafur trommari var látinn hætta fyrir nafna sinn, Ólaf Júlíusson Kolbeins sem þá hafði nýlega verið rekinn úr Paradís (sem Pétur Kristjáns stofnaði eftir að hann var rekinn úr Pelican), sveitin tók sér ekki eiginlegt hlé meðan nýi trommuleikarinn var æfður upp en fremur lítið fór þó fyrir sveitinni um tíma. Það má reyndar einnig rekja til þess að umboðsskrifstofan Demant sem hafði séð um öll þeirra mál (og gefið út litlu plötuna) varð gjaldþrota og því þurftu þeir að annast sjálfir alla umboðsmennsku um tíma. Axel Einarsson tók hins vegar við því starfi fljótlega og upp úr því fór að rofa til. Um vorið 1976 fór Eik í hljóðverið Hljóðrita til að taka upp breiðskífu, um svipað leyti léku þeir félagar undir á breiðskífu Axels, ennfremur starfræktu þeir gleðisveitina Deildarbungubræður sem í upphafi var hugsuð sem eins konar grín til að bjóða upp á brennivínstónlist í ballpásum sveitarinnar. Þar skiptust þeir félagar á hljóðfærum og rótarar og bílstjórar komu einnig við sögu, en að lokum vék grínið fyrir alvörunni og áður en yfir lauk höfðu Deildarbungubræður gefið út tvær plötur, sem reyndar nutu mun meiri vinsælda og seldust mun betur en nokkurn tímann plötur Eikarinnar. Saga sveitanna tveggja er því óneitanlega nokkuð samofin og harmoneruðu ágætlega saman á böllunum með sína ólíku tónlist.
Breiðskífan Speglun kom hins vegar út um haustið 1976, sveitin gaf plötuna sjálf út og fékk hún ágætar viðtökur, til að mynda góða dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, Vísi, Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu en slakari í Þjóðviljanum. Platan skiptist í tvennt, fyrri hluti hennar (a-hliðin) innihélt aðgengilegri lög með söng en seinni hlutinn (b-hliðin) var þyngri og með instrumental lögum. Af þeim sökum fékk platan ekki mikla spilun í útvarpi, það var helst að lagið Stormy Monday nyti vinsælda útvarpshlustenda. Sveitin hafði nú skipað sér í hóp þeirra bestu á landinu og var metnaðurinn mikill, enda var Eik m.a. kjörin hljómsveit ársins hjá Dagblaðinu og í Vikunni.
Í kjölfar þess, í upphafi ársins 1977 (fljótlega eftir útgáfu plötunnar) voru þeir Sigurður söngvari og Ólafur trommari látnir hætta og komu hvorki fleiri né færri en fjórir í þeirra stað, Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Pétur Hjaltested hljómborðsleikari sem komu úr Paradís, og (Magnús) Finnur Jóhannsson söngvari og Tryggvi Hübner gítarleikari, báðir úr Cabaret sem þá hafði nýlega hætt. Þessi útgáfa sveitarinnar var oft kölluð Stóra Eikin. Hljómsveitin fór því aftur fljótlega í hljóðverið Hljóðrita með Tony Cook á tökkunum (um vorið) full af nýjum hugmyndum, annars vegar fyrst í upptökur á sólóplötu Herberts Guðmundssonar sem þeir léku undir á, og síðar í upptökur á eigin plötu. Þess má geta að Haraldur spilaði á bandalausan bassa að einhverju leyti á plötunni en það var í fyrsta skipti sem slíkt var gert hérlendis. Eikin spilaði því eðlilega lítið þessa mánuðina. Síðsumars kom platan út, hún hlaut titilinn Hríslan og Straumurinn og vísaði til eins verksins á plötunni eftir Lárus Grímsson. Textarnir á þessari plötu voru á íslensku en sveitin hafði einmitt sætt nokkurri gagnrýni fyrir lélega enska texta á Speglun. Eikar-liðar voru gagnrýnir í textum sínum á nýju plötunni og deildu á íslenskan samtíma, jafnt á auðvaldshyggju sem stóriðju og var sem slík rammpólitísk. Hríslan og Straumurinn (Straumurinn sem hér er vísað til er staðurinn sem álverið í Straumsvík var sett niður á) fékk mjög góða dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, Dagblaðinu, Tímanum og Morgunblaðinu og jafnvel enn betri í Þjóðviljanum, sem eyddi heilli síðu í plötugagnrýni sína og varð tilefni stuttrar en snarprar ritdeilu milli blaðsins og Morgunblaðsins. Platan seldist þó fremur illa enda um hálfgerða jaðartónlist að ræða sem fyrr um getur, svo fór að Eikin fór í pásu undir lok ársins 1977, stóð þá ekki lengur undir sér. Ekki vantaði þó að í fjölmiðlum var sveitin framarlega í uppgjörum fyrir árið 1977.
Eik kom fáeinum sinnum fram næsta ár, 1978 án þess beinlínis að vera starfandi en byrjaði aftur í ársbyrjun 1979 að starfa með reglulegum hætti. Þá höfðu orðið nokkrar breytingar á skipan hennar, þeir Haraldur, Þorsteinn, Lárus og Pétur voru enn í bandinu en Sigurður Karlsson var nú kominn á trommur í stað Ásgeirs sem nú var kominn á fullt í Þursaflokknum, Lárus gekk reyndar líka til liðs við Þursaflokkinn um sumarið. Þegar Eikin lék á böllum bættist Sigurður Sigurðsson fyrrum söngvari sveitarinnar, í hópinn. Sveitarmeðlimir aðstoðuðu Þokkabót við upptökur á plötu sem þeir unnu að þetta sumar (1979) en starfaði lítið og var líklega alveg hætt um haustið þegar Þorsteinn og Haraldur höfðu gengið í Brimkló, þá hafði Björgvin Gíslason leyst Þorstein af í Eikinni um tíma.
Þar með er hinni eiginlegu sögu hljómsveitarinnar Eikar lokið en þess má geta að hún kom saman aftur árið 2000 og spilaði svolítið opinberlega þá, meðlimir þeirrar útgáfu voru Ásgeir, Tryggvi, Lárus, Pétur, Þorsteinn, Haraldur og Björgvin Ploder sem söng.
Attachments area