Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma (uppskrift frá The sisters café)
- 1 bolli fínmalað spelt
- 1 msk lyftiduft
- ¾ tsk salt
- ½ bolli crunchy hnetusmjör
- ¼ bolli sykur
- 4 msk smjör, brætt
- 2 egg
- 1 bolli mjólk
- ½ bolli grófhakkað suðusúkkulaði (gott að nota Konsum dropa frá Nóa Síríus)
Blandið hveiti lyftidufti og salti saman í skál.
Hrærið hnetusmjör og sykur saman í annarri skál þar til blandan verður mjúk og kremkennd, bætið þá bræddu smjöri saman við. Hrærið eggjum út í, einu í einu, og hrærið þar til deigið er orðið mjúkt og kekkjalaust. Hrærið þurrefnablöndunni varlega saman við og hrærið þar til deigið er kekkjalaust en passið að ofhræra ekki. Hrærið súkkulaðibitunum saman við.
Látið deigið standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið bakið úr því. Deigið þykknar örlítið við það. Bakið vöfflurnar á heitu vöfflujárni og berið þær fram með banarjóma.
Bananarjómi
- 2 stórir bananar
- ¼ bolli sykur
- ½ tsk kanil
- ½ tsk sítrónusafi
- 1 bolli rjómi (1 peli)
Stappið bananana í lítilli skál og setjið sykur, kanil og sítrónusafa saman við þá. Þeytið rjómann í annarri skál. Blandið bananablöndunni saman við þeytta rjómann og berið strax fram. Mér fannst passlegt að nota helming af bananablöndunni út í rjómann – smakkið ykkur áfram.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit