Hnúfubaki sem festist í net norður af Dalvík í Eyjafirði hefur verið bjargað. Hvalaskoðunarbátur varð var við hvalinn og gerði viðvart. Ekki er talið að dýrið hafi verið lengi fast í netinu en þó voru komin sjáanleg lítilsháttar sár af völdum netsins á stirtlu og sporð.

Meðlimir viðbragðsteymis um hvali í neyð, þar sem fulltrúar Matvælastofnunar, Almannavarnadeildar ríkislögreglu, Landhelgisgæslu Íslands, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar eiga fulltrúa, veittu viðbragðsaðilum á Dalvík ráðgjöf m.t.t. velferðar hvalsins og öryggi björgunaraðila við aðgerðir.

Starfsmaður hvalaskoðunarbátsins, sem einnig hefur töluverða reynslu á þessu sviði, fór ásamt björgunarsveitinni á Dalvík út á björgunarbát og skorið var á grásleppunótina þar til dýrið losnaði. Hvalurinn virtist nánast leita eftir aðstoð að hans sögn og var samstarfsfús á meðan á björgunaraðgerðum stóð. Dýrið virðist frískt og talið er að það nái sér fljótt eftir atvikið. 

Myndir af vettvangi: Freyr Antonsson