Tilkynning um hval í veiðarfærum milli Hólmavíkur og Drangsness barst til Landhelgisgæslu Íslands og þaðan til Matvælastofnunar sl. miðvikudag. Taldi tilkynnandi sem var eigandi veiðarfæranna að hvalurinn væri dauður.

Hópur vísindafólks frá samtökunum Whale Wise, sem var við rannsóknarvinnu á hvölum á svæðinu í samvinnu við Háskóla Íslands, fengu myndband frá veiðibát á svæðinu sem sýndi að dýrið væri lifandi. Þeim upplýsingum var miðlað áfram til Matvælastofnunar. Stofnunin virkjaði þá viðbragðsteymið „Hvalir í neyð“ sem samanstendur af sérfræðingum og fulltrúum frá Matvælastofnun, Landhelgisgæslunni, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, Hafrannsóknarstofnun, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Ákveðið var að fengnu samþykki matvælaráðherra, sem fer með málefni sjávarspendýra, að ráðast í björgunaraðgerðir þar sem allar aðstæður voru hagstæðar.

Samtökin Whale Wise, undir handleiðslu Tom Grove, rannsaka í samstarfi við Háskóla Íslands umfang sjáanlegra ummerkja og öra á hvölum sem flækjast í veiðarfærum. Borin voru kennsl á umræddan hnúfubak út frá einstaklingseinkennandi mynstri á sporði og var hann skráður bæði hjá samtökunum og hvalaleiðsögumanni Judith Scott hjá Láka Tours og hann nefndur „Bird“. Bird er tæplega níu metra langur og telst frekar smávaxinn af hnúfubak að vera, enda talinn vera ungur. Fullorðinn hnúfubakur getur náð 12-17 m lengd og 25-40 tonnum. Bird hefur sést á svæðinu síðan um miðjan ágúst sl. en hefur sést á Skjálfandaflóa fyrri ár. Kyn hnúfubaksins er enn óljóst.

Björgunarsveitir frá Hólmavík og Drangsnesi fóru í verkefnið og aðgerðir þeirra leiddu til þess að hnúfubakurinn losnaði úr færunum án sjáanlegs skaða. Bird var frelsinu feginn eftir að vera fastur í veiðarfærunum í rúmar 8 klukkustundir. Kvaddi hann með kröftugu sporðaslagi og sást stefna til hafs og út á Húnaflóa.

Ef vart verður við strandaðan hval, eða hval flæktan í veiðarfæri er hægt að finna leiðbeiningar á heimasíðu Matvælastofnunar um hvernig beri að tilkynna um atvikið.

(Höfundarréttur að mynd með frétt: Flordespina Dodds, Whale Wise).