„Mestan hluta starfsævi minnar hef ég starfað með unglingum og ungu fólki. Ég vil að við hlúum vel að unga fólkinu okkar og gefum þeim aukin tækifæri í heimabyggð. Ég vil finna varanlegt húsnæði fyrir Neon þar sem unga fólkið getur átt sinn stað og ég vill leggja meiri áherslu á að efla starfsemi félagsmiðstöðvarinnar, það vantar betri aðstöðu í Fjallabyggð fyrir unga fólkið okkar því starf félagsstöðva er jú ein af okkar forvörnum. Einnig er með góðu skipulagi hægt að bjóða upp á ungmennastarf (16+) fyrir þá sem lokið hafa grunnskóla.“

Hólmar vill leggja sitt af mörkum við þá vinnu sem fylgir því að sameina skólastig og eiga þá samræðu við kennara um hvað hægt sé að gera til að gera Grunnskóla Fjallabyggðar enn betri. “Með jákvæðari lausnamiðaðri hugsun og umræðu tel ég að þetta frábæra sveitafélag sem Fjallabyggð er geti orðið enn betra. Með þetta að leiðarljósi í áframhaldandi uppbyggingu gerum við sveitafélagið okkar að heillavænlegum kosti fyrir fjölskyldufólk að koma og setjast hérna að.”

Hólmar Hákon er fæddur 2. Júlí 1982 á Árskógsströnd og uppalinn á Hauganesi. Hann er giftur Guðrúnu Þorvaldsdóttur og saman eiga þau Hönnu Valdísi 10 ára og Óðinn Snæ 5 ára. Hólmar hefur verið með annan fótinn á Ólafsfirði síðastliðin 16 ár eða síðan hann kynntist Guðrúnu en þau fluttu endanlega til Ólafsfjarðar árið 2011.

Hólmar lauk bóklegu rafvirkjanámi frá VMA og starfaði sem rafvirki í nokkur ár áður en hann fór í Háskólann á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist með B.Ed í Kennarafræðum M.Ed í Menntunarfræðum.

Hólmar hefur unnið margvísleg störf í gegnum tíðina, m.a. við fiskvinnslu og verksmiðjuvinnu, starfað á eggjabúi, á sveitabæ, sem yfirmaður vinnuskólans á Ólafsfirði og sem starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Neon. Þau fjölskyldan hafa svo starfað sem stuðningsfjölskylda og Hólmar sem liðveitandi. Hann starfar í dag sem kennari á starfsbraut í MTR ásamt því að hafa faglega umsjón með starfsbrautinni.

Hólmar situr í stjórn Skíðafélags Ólafsfjarðar. En hann hefur einnig setið í stjórn Hestamannafélagsins Gnýfara á Ólafsfirði og Hestamannafélagsins Neista á Blönduósi.

Helstu áhugamál Hólmars eru stangveiði, samvera með fjölskyldu og vinum og ferðalög. Hólmar er einnig frístundar fjárbóndi og er því vakinn og sofinn yfir sauðburði þessa dagana. Hann verður vonandi orðinn níu lamba bóndi eftir kosningar.

 

 

Upplýsingar af: facebooksíðu Betri Fjallabyggðar