Mánudaginn 29. apríl kom saman hópur foreldra í Fjallabyggð til að fræðast um fíkniefni og fíkniefnaneyslu. Þeir Gunnar og Kári fulltrúar í fíkniefnateymi Lögreglunnar á Norðurlandi eystra fræddu foreldra og aðra sem á fundinn komu um allt sem snýr að neyslu, tæki og tól. Hafa þeir unnið við málefnið síðan árið 2008.

Fundurinn var öllum opinn og var vel mætt, mikill áhugi var á meðal gesta um málefnið, mikið var spurt og lífleg umræða skapaðist.

Fræðslan var í samvinnu við Lögregluna á Norðurlandi eystra, Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólann á Tröllaskaga.

Upplýsingasíminn 800 5005 og netfangið info@rls.is eru samvinnuverkefni lögreglu og tollgæslu og liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Hafir þú upplýsingar varðandi fíkniefni, mansal og/eða vændi hvetjum við þig til að koma þeim á framfæri við lögreglu.  Fullri nafnleynd er heitið.

Talhólfið og netfangið eru vöktuð allan sólarhringinn sem tryggir að upplýsingarnar berast fljótt og vel til viðkomandi lögregluembætta.

Upplýsinga-/fíkniefnasíminn 800 5005:
Þegar hringt er í upplýsingasímann svarar talhólf.  Þar getur þú lesið inn þær upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri við lögreglu.  Hægt er að gefa upplýsingarnar upp nafnlaust.  Ef lögreglu er heimilt að hafa samband eða þú óskar þess þarf að taka það fram og gefa upplýsingar um nafn, símanúmer eða netfang. Einnig má hafa samband í gegnum netfangið info@rls.is.

 

Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála hóf fundinn

 

Gestir sýndu málefninu áhuga og var mikið spurt

 

Sýnd vor efni sem eru á markaðnum og áhöld sem notuð eru við neyslu

 

Gunnar og Kári fulltrúar í fíkniefnateymi Lögreglunnar á Norðurlandi voru hafsjór af fróðleik