Siglufjörður er líklega það bæjarfélag á Íslandi sem lagði mest pening og tíma af öllum í að steinsteypa götur og gangstéttir á síðustu öld, samtímis sem önnur bæjarfélög voru aðallega í því að malbika sínar götur. Þessar steinsteypugötur eru okkur ekki lengur sýnilegar, en þær eru þarna enn þá, vel faldar undir malbikinu í dag.
Forsíðumyndin hér ofar sem kaupmaðurinn Gestur Fanndal tók út um gluggann hjá sér líklega vorið 1961, sýnir okkur steinsteypta Gránugötu og nýlega steyptan kafla og bílastæði við Ráðhústorgið sem steinsteypu tengir saman Aðalgötu og Gránugötu.
Þessi tímafreka og kostnaðarsama tegund af gatnagerð á Siglufirði á sér langa sögu og byrjaði á Eyrinni líklega kringum 1940 og næstu 4 áratugina er hægt og stöðugt bætt við í misstórum framkvæmda gusum, þar til nær allar miðbæjar götur og gangstéttir á Þormóðseyrinni eru steinsteyptar.
Í norður átt nær síðan steinsteypan alla leið fram hjá Verkamanna bústöðunum norðan við Sundhöll Siglufjarðar og síðasta risastóra verkefnið í lok 1970, var að steypa Suðurgötuna frá Gránugötu að horninu á Laugarvegi og Hverfisgötu.

Hér gætu eflaust margir spurt af hverju var þetta gert svona, en þetta tengist auðvitað veðurfari og snjóþyngd og rökin voru að malbik myndi ekki þola snjómoksturs álagið frá þungum jarðýtum og samtímis fannst þarna ofurtrú á að steinsteyptar götur entust lengi og væru að mestu leyti viðhaldsfríar.
Sjá meira hér um snjóþyngd og snjómokstur o.fl.:
Snjóþungi – snjóflóð – hafís o.fl. 50 myndir
Í bæjarblaðinu Siglfirðing, 6. tölublað (22.09.1961) segir eftirfarandi í stuttri frétt:
” Í fyrra var steypt Gránugata og Lækjargata, milli Aðalgötu og Gránugötu…
… Nú þessa dagana, er unnið að því að steypa Túngötu frá Aðalgötu norður að Eyrargötu, og þann kafla Suðurgötu, sem er ofan Ráðhústorgs. Er þá nokkuð á 2 km af götum Siglufjarðar steinsteyptar og þannig þarf áfram að halda, því aðrar götur bæjarins eru lítt til sóma. í framhaldi af þessu verður Ráðhústorg rutt af skúrum og grasþakið, utan bílastæðis sem fyrirhugað er ofan Lækjargötu, milli Aðalgötu og Gránugötu.“
Hér fara loksins af stað miðbæjar fegrunar framkvæmdir með steinsteypu og grasi þar sem Torgið breytist úr moldardrulluplani í mannsæmandi Ráðhústorg sem stendur undir þessu virðulega nafni. Þetta er einnig upphafið af algjörlega drullubolla lausum bíla rúnti, niður Aðalgötu og upp Gránugötu.
Sjá meira hér og margar áhugaverðar Siglufjarðar miðbæjar ljósmyndir:
RáðHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 hluti. 60 MYNDA-SYRPUSAGA
Í bæjarblöðunum birtast árlega greinar þar sem klagað er yfir ástandinu á moldargötum bæjarins og í stuttri frétt í pistla horni Einherja, 7. tölublað (11.05.1948) sem ber nafnið “Um daginn og veginn” fáum við ágætis lýsingu á þessu ástandi og smá sögulegan bakgrunn.

“Ófærir vegir“
” Það er hörmung og jafnframt bæjarskömm að sjá sumar göturnar hér á Siglufirði á vorin. — Maður getur ekki fengið af sér að lýsa þeim á prenti, enda varla hægt. Hér verða þeir, sem með vegamál fara í bænum að finna einhver ráð til úrbóta.
Það er ekki hægt að bíða eftir því að allar götur verði steinsteyptar, þótt sjálfsagt sé að halda því verki áfram eftir því sem mögulegt er, en það tekur alltaf tugi ára að steypa allar götur bæjarins. Það mun hafa verið 1940 eða 1941, sem fyrst var farið að steypa hér götur og nú hefur Aðalgata verið steypt (upp að Túngötu) og Vetrarbraut….”

“…Það myndi vera annað útlit á götum bæjarins nú, ef við hefðum verið framsýnir að byrja að steypa þær 20 árum fyrr eða þó ekki væri nema 10 árum. — En nú þarf að finna ráð til úrbóta og framkvæma þau. Það er þýðingarlaust að vera bera þessa leirdrullu ofan í göturnar, það er sannarlega að kasta peningunum í skítinn. Fyrir nokkrum árum var gert við hluta Norðurgötu. Sú viðgerð hefur dugað ágætlega.
Væri ekki rétt að banna bílaumferð um sumar götur nokkurn tíma í einu? Eitthvað verður að gera í þessum vegamálum.“

Að sjálfsögðu muna margir eldri Siglfirðingar eftir þessu malargötu ástandi þar sem margar götur komu illa farnar undan snjó og vegheflar voru í því að slétta götur og moka möl yfir verstu drullupollanna.
Svo voru líka vörubílar með stóra vatnstanka í því að bleyta götur og hindra rykið af götunum frá því að festast í þvottinum hjá húsmæðrum bæjarins.
Þetta var ekki beinlínis auðvelt verkefni fyrir bæjarstarfsmenn sem höfðu bara nokkra sumarmánuði á ári í að steypa og betrumbæta gatnakerfi Siglufjarðar.

Að steypa götur er flókið og tímafrekt ferli!
Á mínum unglingsárum (1974 – 80) var ég rétt eins og margir aðrir í sumarvinnu hjá bænum og tók þátt í mörgum götu steypuverkefnum. Fyrst á þvergötunum á Eyrinni á milli Aðalgötu og Eyrargötu (Norðurgata, Grundargata og Lækjargata) og sá maður þá með eigin augum hvað þetta var flókið og tímafrekt ferli.
Fyrst var öll gatan grafin upp og þar á eftir skipt um allar leiðslur, klóak, vatn o.fl. Síðan fyllt upp með efni sem kom úr Hólsdal, en þar var umhverfinu misþyrmt árum saman í efnistöku í einmitt steinsteypugötur. Eftir að efnið var þjappað saman var síðan byrjað að setja upp steypumót og búa til tvöfalda járnabindingu, það dugði ekkert minna. Síðan gat oft sjálf steypuvinnan tekið fleiri vikur og var hún mjög háð góðu verðri.
Íbúar við sundurgrafnar götur gátu ekkert annað gert en sætta sig við þetta ástand frá því snemma um vor og fram á haust.

Í minningum mínum er vinnan við að steinsteypa Suðurgötuna stærsta og erfiðasta verkefnið, því þarna þurfti að byggja samfara gatnagerð mikla stuðningsveggi við götuna og eru þeir allir vel sýnilegir enn í dag. Það sama gildir um Laugarveginn, en hann var reyndar síðan malbikaður, líklega sumarið 1979 eða 80. Þarna fékk maður loksins samanburð á tímafrekri steinsteypu gatnagerð og malbiksvinnu, sem gekk fljótt fyrir sig eftir að allri undirbúningsvinnu lauk.
Þessi bæjarvinnuár eru mér og eflaust mörgum öðrum einstaklega eftirminnileg og lærdómsrík, því á þessum árum fékk ungt fólk að vinna með allskyns tæki og tól, undir handleiðslu frá góðum Bæjarskemmukörlum, þar sem hver og einn af þeim var snillingur á sínu sérsviði og væri nú aldeilis hægt að segja af þeim endalausar sögur…
Að lokum
Sumum gæti eflaust þótt þetta einkennilegt vegval varðandi gatnagerð Siglufjarðar, en á þessum tíma höfðu allir tröllatrú á endingu steinsteypu og að þetta yrðu að mestu leyti viðhaldslausar götur. Það er þó óhætt að segja að jarðsig og margar sprungur mynduðust seinna og þá sérstaklega í gangstéttirnar, sem voru steyptar mun þynnri en göturnar. Einnig minnist ég þess að snjóruðningstæki skemmdu oft kantsteina og útlitið á gangstéttum var oft hálf sóðalegt og síðan gat það einnig orðið tímafrek vinna við að lagfæra klóakstíflur eða vatnsleka undir steinsteyptum götum og gangstéttum.

Það er einnig eftirminnilegt að framan við Barnaskóla Siglufjarðar er mjög svo stórt og mikið steinsteypt plan og var það oft notað sem þrifalegt utanhúss leiksvið við hátíðleg tækifæri, eins og sjá má á þessari mynd.

Sjá fleiri myndir hér: LEIKFIMI- OG FIMLEIKASÝNINGAR! 65 myndir.
Þessi steinsteypu saga er mjög svo Siglfirskt og að mörgu leyti sérstök og ég er ekki frá því að í lok þessara steinsteypuáratuga á síðustu öld, voru kannski kringum 6 – 7 km af götum Siglufjarðar steinsteyptar.
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá ljósmyndaranum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.
