Siglufjarðarvegur. Mynd/Jón Ólafsson

Þeir sem ekið hafa Siglufjarðarveg í gegnum tíðina vita hvað hann er oft á tíðum slæmur, þar er mikið jarðsig, hætta á skriðuföllum, grjóthruni, snjóflóðum og vegurinn oft ófær svo eitthvað sé nefnt.

Í sumar flaug Jón Ólafsson flugmaður yfir Almenninga og Siglufjarðarveg og tók myndir úr flugvélinni. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem hann tók af vegarstæðinu og má það vera öllum ljóst að vegarstæðið er hrikalegt og má lítið út af bera svo illa fari.

Saga Siglufjarðarvegar og Strákagangna

Árið 1954 var rætt um á Alþingi að leggja veg fyrir Stráka, meðfram sjónum, eða gera göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta, og hefðu þau þá orðið um fimm kílómetrar að lengd og mjög dýr. Síðar kom fram sú hugmynd að leggja veg úr Fljótum út með ströndinni að Strákum og gera mun styttri og ódýrari göng þar í gegn til Siglufjarðar. Varð sú leið ofan á og hófst vegagerðin sumarið 1956. Hún gekk þó fremur hægt, bæði vegna fjárskorts og vegna erfiðra aðstæðna en vegurinn liggur víða utan í bröttum fjallshlíðum.

Gerð Strákaganga hófst 1959 og voru þá grafnir um 30 metrar en kraftur var ekki settur í framkvæmdir fyrr en sumarið 1965. Síðasta haftið var sprengt 17. september 1966 og göngin voru svo opnuð 10. nóvember 1967. Voru þau önnur í röð jarðganga fyrir bílaumferð á Íslandi. Göngin eru 793 metrar á lengd. Upphaflega áttu þau að vera tvíbreið en frá því var horfið og eru þau einbreið með útskotum.

Ekki spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar

Það er mál manna að ekki sé spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar og raddir þeirra sem vilja fá jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar eru að verða æ háværari. Sjá frétt: JARÐGÖNG MILLI SIGLUFJARÐAR OG FLJÓTA




Ég endurtek að þarna er um hættukafla mikinn að ræða 

Árið 1983 tók Páll Pétursson jarðsig á Siglufjarðarvegi fyrir á Alþingi og var þar sagt meðal annars.

“Það er þörf ítarlegra framhaldsrannsókna á þessum stað. Það er líka þörf á að gera þarna nákvæmar kostnaðaráætlanir, því það er mjög mikið í húfi, og það er nauðsynlegt að spara ekki til undirbúningsins, þannig að þetta verkefni megi vinna með þeim hætti að að gagni megi koma. Sú viðgerð, sem unnin hefur verið til þess, er einungis bráðabirgðaviðgerð. Það er keyrt og keyrt, að vísu með miklum kostnaði, efni ofan í veginn eftir því sem hann sígur, og nú er vegarstæðið orðið allt annað en það var fyrir 4–5 árum.

Þessi tillaga er flutt til að vekja athygli á þessu verkefni og til að reyna að vinna að því að ekkert verði til sparað að úrbætur lánist sem best og menn viti að hverju þeir ganga þegar hafist verður handa.

Ég endurtek að þarna er um hættukafla mikinn að ræða og þarna getur orðið slys. Við flutningsmenn viljum ekki bíða eftir að þarna verði slys, heldur viljum við reyna að bæta úr því og fyrirbyggja það”. Sjá nánar: HÉR

Siglufjarðarvegur 2020

Heimildir: Wikipedia/Alþingi
Myndir: Jón Ólafsson