Sigurður Jóhannesson

Sigurður Jóhannesson er yfirhjúkrunarfræðingur svæðis í Fjallabyggð, sem er sameinað bæjarfélag Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Hann kom til Siglufjarðar frá Reykjavík fyrir yfir 30 árum síðan með konu sinni, Sóleyju Reynisdóttur sem er líka hjúkrunarfræðingur og tveimur börnum þeirra. Stefnan var tekin á 2-3 ár en á Siglufirði eru þau hjónin búin að vera í 30 ár og tveimur börnum ríkari. 

HSN í Fjallabyggð rekur heilsugæslu og ódeildarskipt sjúkrahús á sama stað með tuttugu rýmum á hjúkrunardeild og þremur sjúkrarýmum. Þá er heilsugæsluútibú á Ólafsfirði. Alls starfa rúmlega 60 manns hjá HSN í Fjallabyggð sem þjónusta rúmlega 2000 íbúa.  

Öflugt nýsköpunarstarf til að bæta gæði þjónustu fyrir skjólstæðinga 

Sigurður og samstarfsfólk hefur tekið þátt í verkefnum sem snúa að því að efla og bæta þjónustu við skjólstæðinga í Fjallabyggð. Þau tóku m.a. þátt í að þróa lyfjafyrirmælakerfi, sem er samtvinnað við Sögukerfið og gjafaskráningarkerfi, sem er rafræn skráning á allri lyfjagjöf fyrir aukið öryggi. Núna er þessi hugbúnaður í notkun víða um land.  

Þá er annað spennandi verkefni og samstarf á milli HSN í Fjallabyggð, sveitafélagsins Fjallabyggðar og VelTek (Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands), sem felur í sér að þróa velferðartækni fyrir íbúa Fjallabyggðar frá 60 ára aldri. Sérstöku úthringiveri hefur verið komið á laggirnar til að hringja í fólk á kvöldin og framkvæma skjáheimsóknir, til þess að heyra í fólki og fylgjast með heilsufari þess. „Þetta er mikilvægt og fyrirbyggjandi starf því hægt er að grípa fyrr inn í hjá fólki ef þörf er á. Fólk heima fyrir getur einnig nýtt sér velferðartæknina með t.d. lyfjaskömmturum, sem eru sérstakir lyfjaróbótar sem aðstoða fólk við að taka lyfin sín á réttum tíma og af réttum skammti á sjálfstæðan hátt.“  

Óvenjumargir karlkyns hjúkrunarfræðingar í Fjallabyggð

Þegar Sigurður hóf hjúkrunarnám voru þrír strákar í hópnum, en tveir sem kláruðu námið og útskrifuðust árið 1984. “Það hefur ekki verið nein stórkostleg breyting á kynjahlutfalli í náminu síðan þá, þetta gengur mjög hægt, bæði hér miðað við annarsstaðar í Evrópu. Við erum tveir karlkyns hjúkrunarfræðingar á Siglufirði í dag . Við höfum reyndar verið óvenjumargir hér í gegnum tíðina, til lengri eða skemmri tíma og stundum í meirihluta.”  

“Við höfum verið mjög heppin með starfsfólk í gegnum tíðina, fólk hefur haldist vel og lengi í starfi hjá okkur, sem eru meðmæli með bæði vinnustaðnum og Fjallabyggð og við höfum komið vel út úr starfsánægjukönnunum. Svo er gott að vera hérna en við sjáum að það er nokkuð algengt að fólk snúi aftur heim eftir nám. HSN hefur verið duglegt að kynna starfsemi stofnunarinnar á meðal háskólanema á Akureyri sem hefur skilað sér til ýmissa staða, m.a. hingað og við erum líka með svipað átak og á Húsavík þar sem við höfum stutt við þau sem vilja klára sjúkraliðanám með vinnu og hafa þannig öðlast réttindi.”  

Hjúkrunarfræðingar prófi að vinna út á landi 

Sú fjölbreytni sem hjúkrunarstarf út á landi býður upp á gefur lífinu lit og Sigurður mælir með að hjúkrunarfræðingar prófi að vinna út á landi. „Það segir manni ýmislegt að hafa ætlað að koma hingað á sínum tíma til að vera í tvö ár, þrítugur Reykvíkingurinn, en vera svo búinn að vera hér í yfir þrjátíu ár. Hér var allt miklu rólegra, engin þörf á að skutla börnum neitt, rólegt samfélag en þó iðandi af lífi. Það er til dæmis heilmikið um að vera hér í líftækniiðnaði og menntað fólk hefur verið að flytja hingað með fjölskyldur sínar, sem er mjög ánægjulegt. Svo er hér dásamleg náttúrufegurð, paradís fyrir fólk sem hefur yndi af hreyfingu allan ársins hring; skíði, gönguskíði eða göngur um fjöll og firnindi. Það er mjög auðvelt að komast inn í allt mögulegt hérna, ég kom mér á blakæfingar og meira að segja í hljómsveit sem heitir Gautar, sem hefur sko gert garðinn frægan. Svo er auðvitað alltaf gott veður hjá okkur!“  

Myndir og heimild/HSN