Í þessari skemmtilega uppsettu og fallega myndskreyttu bók, er óhætt að segja að blessuð SÍLDIN sameini bæði fólk og margar sögur um t.d: Síldveiði, Síldarsöltun, Síldarrétti, Sendiherra, Svíþjóð, Síldarkokk, Skandinavíu, Síldarminjasafn og Siglufjörð. Því þú getur auðvitað ekki sagt orðið SÍLD, án þess nefna Sigló í sömu setningu.
Bókin er bæði ferðasaga og samtímis síldarrétta uppskriftabók, eins og undirtitill bókarinnar gefur í skyn:
„Ferðalag frá nyrstu slóðum Íslands til syðsta odda Afríku í hlýjum faðmi síldarinnar.“
Hugleiðingar um bókina:
SÍLDARDIPLÓMASÍA
Höfundur: Ted Karlberg & Håkan Juholt
Útgefandi: Bókaútgáfan Hólar, 2024, í samvinnu við Síldarminjasafn Íslands
Ritstjórn: Anita Elefsen & Guðjón Ingi Eiríksson
En hvar og hvernig byrjaði þessi saga?
Sagan byrjar í sendiherrabústað á Íslandi… og þaðan kemur nafn bókarinnar.
“Síldardiplómasía” er sprottin upp úr þýðingum á sænsku bókinni “Silldiplomati”, en er samt ekki alveg sama bókin, enda eru þær skrifaðar með tvo ólíka markhópa í huga. Pistlahöfundur keypti sænsku útgáfuna 2022 og las hana upp til agna og hefur nú lesið báðar útgáfur og einnig tekið óvænt þátt í þýðingum á nokkrum köflum í bókinni.
Það er í rauninni ekki réttlátt að bera þær saman, en sama grunnhugmynd ber uppi báðar bækurnar og hún snýst um þá staðreynd að það er okkar samnorræna síldarsaga sem í rauninni mest sameinar Íslendinga og Svía.
Mun meira en sameiginlegar rætur í gömlum Víkingasögum.
Eins og sjá má á efnisyfirliti bókarinnar er farið víða um völl, með mikið af fræðandi ljósmyndum í og á milli kafla um ýmislegt áhugavert, úr bæði íslenskri og sænskri síldarsögu. Fjöldin allur af gómsætum síldarréttar uppskriftum og fallegar ljósmyndir fylla síðan upp restina.
Þetta eru í heildina 268 augnayndis blaðsíður.
Håkan Juholt, Síldarsendiherra!
Hann kom, sá og sigraði hjörtu og bragðlauka Íslendinga, setti á sig svuntu og bjó til einfalda og góða síldarrétti og bar þá fram undir kristalkrónunum í sendiherrabústaðnum. Íslendingum varð loksins ljóst að síldin, sem lengi vel var talin fátæktar matur og eiginlega ekki mannamatur á Íslandi, er í rauninni herramannsmatur.
Ekki síst eftir að hann fékk fræga síldarkokkinn Ted Karlsberg, sér til aðstoðar. En Ted er í rauninni aðalhöfundur bókarinnar. Þannig opnaði sendiherrann Håkan og síldarréttir Teds upp samskipti og vináttu milli fólks, með þeirri einföldu staðreynd sem liggur í að það er síldarsagan sem sameinar okkur mest. Sagan og gómsætir síldarrréttir og snaps í munni, smyrja málbeinið og gefur okkur jafningjagrunn í samtölum. Eitthvað til að byggja á í sameiginlegri framtíð og eflir samtímis áhugann á okkar eigin þjóðarmenningu og gefur okkur líka betri skilning á því hversu STÓR síldin er í menningarsögu Svíþjóðar… og Íslands.
Undirritaður getur staðfest eftir 34 ára búsetu í Svíþjóð, að orðið “ISLANDSSILL” fær enn eldri Svía til að fá “Vatten i munnen” þegar minnst er á þessa heimsfrægu, stóru feitu Íslandssíld.
Håkan er jarðbundinn maður og góður landsbyggðardrengur frá Oskarshamn og hann á sínar grasrótarætur í Sænska jafnaðarmannaflokknum, hér áður fyrr þekktur stjórnmálamaður og nú sem sendiherra. Hann hefur glöggt auga og segir skemmtilega frá, þegar við ferðumst með honum og Ted á bæði Íslandi, í Svíþjóð og Suður Afríku.
Íslenska útgáfan af bókinni, gefur okkur gott yfirlit yfir sænska náttúru og menningu og það má öllum vera ljóst að ekkert getur orðið meira sænskt, en einmitt:
Síld og ferskar kartöflur.
Það er einnig mjög svo fræðandi og skemmtilegt að t.d. lesa og skoða mjög svo fallegar ljósmyndir sem sýna uppbyggingu Síldarminjasafns Íslands og alla þá starfsemi sem tilheyrir safninu í dag. Flottir kaflar um t.d. síld og listaverk, síldina í bókmenntum og.fl. Óhætt er að segja að þetta glæsilega safn, hýsir í rauninni allar hliðar á “Síldarsögu heimsins.” Þessir kaflar eru að sjálfsögðu skrifaðir af Siglfirsku síldarsögu fræðifólki.
Þeir sem vilja lesa meira um ævi og störf Håkan Juholts, geta lesið og séð ýmislegt hér:
Wikipedia: Håkan Juholt og síðan er hér mjög svo skemmtilegur þáttur á SVT-play: Partiledaren som klev ut ur kylan, en þar er hægt að sjá mikið myndefni frá sendiherratíð hans á Íslandi.
Ted Karlberg, Síldarkokkur med mera!
Aldur: 56 ára
Býr í: Karlskrona, Blekinge, Sverigeland
Atvinna: Ljósmyndari, kvikmyndaframleiðandi, síldarrétta kokkur, síldarbóka rithöfundur
Fjölskylda: Góð skilningsrík kona og 4 börn
Áhugamál: Kvikmyndir og SÍLD
Ted er mjög frægur síldarrétta sérfræðingur og þeir sem kaupa þessa bók, fá svo sannarlega mikið fyrir aurin og margt og mikið af þessu, eru sáraeinfaldir og fljótlagaðir gómsætir síldarréttir. Það kemur einnig vel fram, að bæði Ted og Håkan féllu kylliflatir fyrir öllu því sögulega og fallega umhverfi sem Siglufjörður geymir í faðmi hárra fjalla.
Svo skemmtilega vill til að undirritaður hitti Ted á Strandmenningarhátiðinni sumarið 2018, heima á Sigló.
Það var augljóst að Ted veit hreinlega ALLT um síld og síldarrétti og þessi viðvera hans á Strandmenningarhátíðinni, staðfestir hugsanir um sameiningarmátt síldarinnar í því sem hann segir frá seinna í viðtali sem birtist í Blekinge Län Tidning í nóvember 2022. Þessi einstaki maður er svo sannarlega með mörg járn í eldinum samtímis, en í viðtalinu segir meðal annars:
“Ted er út um allt og hvergi samtímis, hann er viðriðinn bæði heimilda- og spennukvikmyndagerð, ferðast á svipstundu til Kiruna, Suður Afríku og svo til Las Palmas og hittir fræga vini eins og Alexander Skarsgård og Håkan Juholt og svo er það síldin.. já, Síld…
í miklu magni…”
” En síldin hefur svo sannarlega gefið mér marga góða vini og leitt mig út í allskyns óvænt ævintýri….”
…” Þetta byrjaði allt saman 2010 með því að ég gaf út bókina: “Stutt innlegg um innlagða síld” og það bar mig seinna alla leið til Íslands… og þar varð Ted samsekur sænska sendiherranum um að skapa einhverskonar írafár um síldarrétti og innlagða síld og átti það jafnt við um broddborgara landsins, sem og almenning og kúnnana í IKEA í Reykjavík. Þarna skapaðist einstök vinátta á milli Ted og Håkans, sem nú hefur smitað af sér í nýrri síldarhisteríu í Suður Afríku. “
Sjá meira hér: Ted från Blekinge bjöd Hollywoodstjärnan på sill.
Ted skrapp líka aftur til Siglufjarðar og aðstoðaði Síldaminjasafnið við að fá í gang framleiðslu á gómsætum síldarréttum sem nú eru bornir á borð í Síldarkaffi / Herring Café í Salthúsinu fallega.
🎶 Já… sjómennskan og “bókaútgáfa” er ekkert grín! 🎵
Íslendingar elska bækur og góðar sögur og Svíar elska síld, er hægt að ná þessu tvennu saman í áhugaverða bók?
Já, greinilega og í rauninni eru þessar hugleiðingar mínar saga um söguna og meiningin er að benda á sameiningarmátt síldarsögunnar og að í þessu þýðinga og útgáfuferli hafa margir lagt hönd á plóg og lagt sig alla fram við að gera efnið áhugavert og skemmtilegt fyrir ÍSLENSKA lesendur.
Allskyns samskipta skeyti hafa flogið á milli landa og skráðir höfundar hafa sýnt stóra virðingu og skilning á að sumt sem var skrifað fyrir sænska lesendur væri kannski ekki áhugavert lesefni fyrir Íslendiga, þar af er þó nokkur munur á efnisinnihaldi sænsku útgáfunnar og þessari útgáfu.
Ef að þetta útgáfuferli væri 90 mínútna langur knattspyrnuleikur, þá kom undirritaður inn á sem vara- þýðingarmaður á 85 mínútu leiksins og hér gerast hlutirnir hratt í lok júli. Það er auðvitað “deadline” á ýmsu í útgáfuferlinu, ef maður vill að bókin sé seljanleg í komandi jólabókaflóði. Útgáfuklukkan tikkaði hratt og augljóst fyrir útgefandann að verkefnið var of stórt fyrir aðalþýðanda bókarinnar og upphaflega samþykkti ég að komu að frekar litlum hluta, en svo gerist sá hörmulega sorglegi atburður að aðalþýðandinn, Jakob S Jónsson lést skyndilega.
Nú voru góð ráð dýr og fékk ég þá til mín fleiri kafla og samtímis bættust tveir aðrir þýðendur inn í útgáfuferlið.
Undirritaður getur ekki séð í fljótu bragði að það sjáist einhver markverð stílbrot, þrátt fyrir að fjórir þýðendur aðstoðuðu við útgáfuna og að þetta varð mikið flýtiferli á lokametrunum. Enda er lesendum augljóst við lestur að margir pennar standa á bak ólíkum hlutum bókarinnar. Þökk sé góðri ritstjórn og mörgu öðru kunnáttufólki, þá tókst að ná þessu saman í fallega og áhugaverða bók.
Undirritaður hafði áhyggjur af tímapressunni og einnig af því verkefni að þýða t.d. kafla um ólík sænsk héruð og tengingu náttúruafurða þeirra við síldarréttauppskriftir. Þessi atriði eru eitthvað sem er svo ótrúlega sænskt og skiljanlegt og sjálfgefið fyrir flesta Svía, en erfitt í orðum að útskýra fyrir íslenskum lesendum.
Einnig komu upp vangaveltur hvort að það kæmi nægilega vel fram fyrir íslenska lesendur að þetta með eigin tilbúna síldarrétti sé í rauninni einhverskonar sænsk þjóðaríþrótt og þar af leiðandi hafa svíar miklu stærri vöruúrval varðandi hráefnis innkaup. Sem dæmi má nefna að fyrir stórhátíðir, þá eru síldar kælidiskar stórverslana fleiri metrar á lengdina og á síðasta jólahlaðborði sem ég fór á, voru 30 síldarréttir í boði. Allt gert á staðnum, samkvæmt leynilegum uppskriftum sem erfðust á milli kokka kynslóða á þessum sögufræga veitingastað.
Það róaði mína sænsk Siglfirsku þýðandasál mikið að vita að sagnfræðinurinn og forstöðumaður Síldarminjasafnsis, Anita Elefsen, væri með í ritstjórn og að hún var einnig í góðum samskiptum við Ted Karlberg og aðra kunnuga síldarsöguaðila heima á Sigló, eins og t.d. Örlyg Kristfinnsson sem var með á hliðarlínunni.
Það gladdi mig einnig mikið að sjá að ábending mín varðandi útskýringar um svokallaða “5 mínútna síld” sem svíar nota mikið í ýmsar heimatilbúnar innlagningar síldarmarineringu er með strax á bls. 7, undir góðum formála Anitu.
Að lokum…
Síld er makalaust merkilegur og góður matur og hún er rauninni yfir það hafin að vera kallaður fiskur, silfur hafsins passar mun betur. Síldin er full af góðum fitusýrum og þar af leiðandi mjög svo móttækileg fyrir því að taka við og sjúga í sig krydd og ýmis bragðefni. Þó svo að þú lesandi góður hafir ekki aðgang að t.d. “5 mínútna síld” sem er gerð til þess að gera heimamarineringu fljótgerða og einfaldari, þá skaltu samt óhrædd/ur nota þá síld sem þér stendur til boða á íslenskum markaði.
Æfingin skapar meistarann og í rauninni er næstum ómögulegt að mistakast við að gera góðan sildarrétt.
Síldin er svo góðhjörtuð og ljúf að hún tekur við hverju sem er og kannski dettur þú í þínum innlagningar tilraunum, niður á eitthvað mjög sérstakt, sem verður kannski nýtt fjölskyldu leyndarmál um ókomna framtíð.
Það mikilvægasta er að þora og prufa sig áfram, aftur og aftur.
Þessi bók á að mínu mati mikið erindi til íslenskar lesenda og á eftir að verða bókin sem fólk grípur í og les og skoðar aftur og aftur.
Hún er lesverðug, fræðandi og falleg og við lestur bókarinnar eru miklar líkur á því að síldin fái loksins uppreisn æru, í munni, maga og huga margra kynslóða Íslendinga.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðuljósmynd af bókarkápu og aðrar myndir úr bókinni eru birtar með leyfi frá úgefenda.
Vísað er í ýmsar heimilir í greinartexta.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON