Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri

Vegna samkomubanns og takmarkana stjórnvalda.

Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar.

Enn höfum við fengið verkefni upp í hendurnar sem okkur er gert að leysa, verkfærin eru af skornum skammti og okkur hefur ekki verið kennt hvernig á að nota þau. Þá reynir á þolinmæði, útsjónarsemi, sveigjanleika og jákvæðni sem aldrei fyrr. Mikilvægt er að allir nálgist verkefnið með opnum huga og taki aðvaranir stjórnvalda alvarlega.

Um helgina hafa stjórnendur Dalvíkurbyggðar unnið að útfærslu viðbragðs- og aðgerðaráætlana m.v. þær upplýsingar sem okkur bárust á föstudag.

Mánudagurinn er starfsdagur okkar stærstu þjónustustofnana og þá leggjum við línurnar fyrir tímann fram að páskum. Eðlilega er mesta áskorunin lögð á herðar skólanna en mikilvægt er að allar stofnanir tileinki sér vinnubrögð í samræmi við útgefnar takmarkanir á samgangi.

Í aðgerðaáætlunum leitum við leiða til þess að minnka líkur á því að heill vinnustaður þurfi að fara í sóttkví. Margt er hægt að gera til að minnka líkurnar á því að smitið taki samtímis til margra starfsmanna eða allra starfsmanna sem sinna sömu verkefnum. Samkomu- og samgangstakmarkanir ásamt tveggja metra reglunni minnka líkur á hópsmitum.

Áfram hvet ég íbúa Dalvíkurbyggðar til að fara að öllu eftir fyrirmælum fagfólks okkar og reglum sem settar hafa verið hjá Almannavörnum. Munið samt að huga að andlegri og líkamlegri heilsu og hafið jákvæðnina í fyrirrúmi.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.