Bæjarráð Fjallabyggðar hefur fjallað um vinnuskjal frá bæjarstjóra þar sem kynntar eru hugmyndir að byggingu knatthúss í sveitarfélaginu. Húsið yrði 50 x 70 metrar að stærð og myndi auka verulega möguleika á æfingaaðstöðu fyrir knattspyrnu. Einnig er gert ráð fyrir að það gæti nýst til fjölbreyttrar annarrar starfsemi.

Bæjarráð þakkaði fyrir framlagðar hugmyndir og samþykkti að boða fulltrúa Knattspyrnufélags Fjallabyggðar á næsta fund ráðsins til að fara yfir málið nánar.

Jafnframt var bæjarstjóra falið að leggja fyrir bæjarráð tillögu að verklagi og ferli fyrir endurskoðun á stefnunni Stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála 2023–2035 í Fjallabyggð. Lagt er upp með að stefnan verði uppfærð reglulega og taki mið af aðstæðum hverju sinni.