Rósa Jónsdóttir, formaður Golfklúbbs Fjallabyggðar, hefur verið valin sjálfboðaliði ársins 2025 á Norðurlandi eystra. Viðurkenningin var veitt í tengslum við Alþjóðlegan dag sjálfboðaliðans sem haldinn var 5. desember síðastliðinn, en Rósa var ein fjölmargra sem hlutu tilnefningu og var dregin út úr innsendum tillögum.

Í umfjöllun á umfi.is kemur fram að Rósa hafi um langt árabil gegnt lykilhlutverki innan Golfklúbbs Fjallabyggðar. Hún hefur lagt mikla vinnu í starfsemi klúbbsins og sinnt margvíslegum verkefnum, allt frá slætti á golfvellinum til aðstoðar við golfkennslu og uppbyggingu starfsins í heild. Þegar umsagnaraðilar voru spurðir um mikilvægi hennar fyrir klúbbinn var svarið skýrt. Hún er golfklúbburinn.

Rósa hefur einnig látið til sín taka víðar í sjálfboðastarfi í Fjallabyggð og stóð meðal annars vaktina ásamt öðrum sjálfboðaliðum á Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fór í sumar. Þar sem annars staðar hefur hún verið ómetanlegur bakhjarl í íþróttalífinu og samfélaginu öllu.

Í tilkynningu frá Íþróttalífinu í Fjallabyggð UÍF segir að Rósa sé sannarlega vel að þessari nafnbót komin, enda hafi hún skilað ómetanlegu starfi fyrir golfíþróttina og íþróttalífið í Fjallabyggð undanfarin ár. Að lokum eru henni færðar innilegar hamingjuóskir með verðskuldaða viðurkenningu.

Mynd: umfi.is