Framkvæmdir við byggingu Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík eru hafnar og nýlega var skrifað undir samning mennta- og menningarmálaráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins við verktakafyrirtækið ÍSTAK um framkvæmdina. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Karl Andreassen forstjóri ÍSTAKs undirrituðu samninginn á byggingastað hússins.

Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verða sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir sem og skrifstofur og bókasafn. Á undanförnum árum hefur ekki verið unnt að sýna þau handrit sem varðveitt eru hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en með tilkomu hússins verður bylting í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma.

Nemendur og fræðimenn í íslenskum fræðum verða með tilkomu hússins í fyrsta sinn undir sama þaki og helstu rannsóknargögn um þróun og sögu tungumálsins. Þannig myndar húsið umgjörð utan um þjóðararf Íslendinga og skapar aðstæður til að efla þekkingu og þróun á tungumálinu. Þá er húsinu ætlað að vera miðstöð fólks sem miðlar menningararfinum til komandi kynslóða.

„Íslensk tunga er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar, við viljum sýna henni og menningararfinum sóma. Hús íslenskunnar mun þjóna fjölbreyttum tilgangi og verður um leið mjög táknræn bygging fyrir mikilvægi tungumálsins fyrir okkur öll,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni, „handritin eru einar merkustu gersemar þjóðarinnar og geyma sagnaarf sem er bæði dýrmætur fyrir okkur og hluti af bókmenntasögu heimsins.“

Hús íslenskunnar verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta hússins og opins bílakjallara. Gönguleið verður milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu í gegnum bygginguna. Ráðgert er að bílakjallari hússins verði risinn fyrir lok nóvember 2019 og að uppsteypu fyrstu hæðar ljúki um mitt ár 2020. Reiknað er með að húsið verði fokhelt í byrjun árs 2021 og að framkvæmdum ljúki í sumarlok 2023. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður 6,2 milljarðar kr. Ríkissjóður mun fjármagna um tvo þriðju af heildarkostnaði og Háskóli Íslands um þriðjung með sjálfsaflafé.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingu hússins, ÍSTAK er aðalverktaki þess og verkfræðistofan Efla hefur með höndum framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn. Aðalhönnuðir byggingarinnar eru Hornsteinar arkitektar ehf.

 

Mynd: Stjórnarráðið