Húsfylli var við opnun sýningar á um 80 ljósmyndum Svavars Berg Magnússonar í Pálshúsi í dag laugardaginn 7. júlí, kl. 15.
Annars er opið þar daglega kl. 11-17 í sumar og ókeypis aðgangur að ljósmyndasýningunni.

Sömuleiðis verða listilega gerð líkön af skipum og bátum sem Magnús Gamalíelsson gerði út frá Ólafsfirði sínum tíma og margvíslegir munir tengdir útgerðarsögu fyrirtækis Magnúsar og fjölskyldu hans til sýnis.

Áhugaljósmyndarinn Svavar Berg er sonur hjónanna Magnúsar Gamalíelssonar og Guðfinnu Pálsdóttur. Í safni hans eru um 55.000 ljósmyndir og frá því hefur verið gengið að Minjasafnið á Akureyri fái safnið til varðveislu. Margar ljósmyndir Svavars komu fyrir augu fjölda landsmanna því hann sá Morgunblaðinu fyrir fréttamyndum frá Ólafsfirði áratugum saman.

Að sýningunni í Pálshúsi stendur sjávarútvegsfyrirtækið RAMMI í Fjallabyggð í samstarfi við Svavar Berg. Tilefnið er að liðin eru 90 ár frá því Magnús Gamalíelsson hóf útgerð og fiskvinnslu á eigin vegum. Fyrirtækið hans varð síðar eitt hið öflugasta í sjávarútvegi á Norðurlandi með höfuðstöðvar í Ólafsfirði og rekstur líka í Keflavík.

Magnús Gamalíelsson hf. sameinaðist Þormóði ramma-Sæbergi hf. árið 1997 og fleiri félög sameinuðust í félagi sem nú heitir RAMMI með útgerð frá Fjallabyggð og Þorlákshöfn og vinnslu sjávarafurða á báðum stöðum.

Með sýningarhaldinu vill RAMMI heiðra elstu sögurætur sínar og jafnframt heiðra skrásetjarann með myndavélina, Svavar Berg Magnússon, í tilefni áttræðisafmælis hans 11. október næstkomandi.

Texti og myndir: aðsent