Svarið er að líklega er það bara ein Hvanneyrarbraut í bænum, en hún er hins vegar í mörgum hlutum. Þegar rætt eru um gatnakerfið á Siglufirði er það yfirleitt skoðun manna að vel hafi tekist til á sínum tíma. Göturnar á eyrinni séu eins og  fyrirmyndarskipulag gerist best í útlöndum og götur liggi út og suður, en aðrar þvert á þær nokkurn vegin í austur og vestur. Eyrin sé þannig reituð niður og mikð rétt, það var greinilega hugsun á bak við skipulagið á sínum tíma og þökk sé þeim sem að þeim þætti stóðu fyrir rúmum hundrað árum. Það er hins vegar minna rætt um skrýtnu göturnar, og þegar ég segi skrýtnu göturnar þá er ég svo sem ekkert að hugsa um t.d. að syðsta gatan í bænum heiti Norðurtún og nafngiftin því í undarlegra lagi. Nei, upp í hugan koma „sundurslitnu“ göturnar í bænum sem liggja flestar í hlíðinni fyrir ofan eyrina. Ég er til dæmis fæddur og uppalinn á Hverfisgötu þeirri nyrðri, en nánast útilokað hefði verið á sínum tíma að tengja hana saman við syðri hlutann og enn meira mál núna þegar gatan hefur verið tengd nyrsta hluta Hávegar með fagurmótaðri beygju sem kostaði þrjú hús eða þrjár byggingalóðir sem fóru undir umrædda beygju. 

En Hávegurinn er svo reyndar annað mál því hann er þrískiptur. Nyrsti hlutinn er norðan við Jónstúnið, en miðhlutinn sunnan við það og nokkru ofar. Þá er syðsti hlutinn enn sunnar og enn ofar. Mín skoðun er að þetta séu í raun þrjár götur sem ættu þess vegna að bera þrjú mismunandi nöfn, nema áform séu uppi um að tengja þær saman í framtíðinni. Sama gildir í raun um Hverfisgötuna. 

Þá var Hólavegurinn svipað dæmi sem reyndar var bjargað fyrir horn, en Hvanneyraráin skildi að norður og miðhluta hans þar til hún var brúuð og miðhlutinn og suðurhlutinn voru lengi vel slitnir í sundur af Hólavegi 5 sem stóð í miðri götunni utarlega í svokölluðum Gryfjum þar til það var flutt og stendur það nú handan fjarðar sem hinn smekklegasti sumarbústaður. Þessi tenging var líka möguleg þar sem endar „Hólavegsbútanna“ stóðust ágætlega á sem á ekki við um hinar fyrrnefndu götur. 

En segja má að steininn taki þó alveg úr þegar komið er að Hvanneyrarbrautinni sem mér sýnist jafnvel vera í fimm eða sex hlutum sem útilokað er að tengja saman svo að úr verði eitthvað sem gæti talist heilstætt eða vitrænt að einhverju leyti. Það sem gerir svo málið enn skrýtnara er að þráðbeint og rökrétt framhald af stærsta og lengsta hluta Hvanneyrarbrautar sem núna er verið að gera, á að heita Vallarbraut sem verður alveg örugglega ruglað saman við Vallargötu um alla framtíð, en sú gata er næsta gata fyrir neðan gamla Gaggann við Hlíðarveg ef einhverjir vita ekki af henni og er hún því örskammt frá næstum því nöfnu sinni. 

Þó mætti bjarga þessu undarlega Hvanneyrargötuklúðri með því að gefa þeim hluta sem enn er hægt að tengja saman og eru ofan gamla vallarins og bútum í beinni línu þar norður af annað nafn, en skilgreina Vallarbrautarævintýrið sem hluta af Hvanneyrarbraut og tengja svo þá götu litla Hvanneyrargötubútnum sem tengist Bæjarbrekkunni einhvern tíma í framtíðinni. Það þætti mér öllu rökréttara en öll sú steypa sem boðið hefur verið upp á í götunafnarugli síðustu áratuga, en þetta er auðvitað bara mín skoðun.


Leó R Ólason