Svar meirihlutans við grein H-listans

 Hvaða stríðsöxi þarf að grafa? 

Í gær birtist á hedinsfjörður.is yfirlýsing H-lista vegna 646. fundar bæjarráðs Fjallabyggðar. Yfirlýsingin snýr að bókun meirihluta bæjarráðs við þrjá liði sem voru á dagskrá fyrrnefnds fundar og svo afgreiðslu á tillögu H-lista síðar á fundinum. 

Án þess að það sé vilji meirihluta að standa í orðaskaki við H-listann þá verður ekki hjá því komist að fara yfir málið íbúum Fjallabyggðar til upplýsingar. 

Forsagan. 

Eins og allir vita þá eru uppi miklar blikur á lofti vegna Covid-19 sem nú herjar á landið og heiminn allan. Sakir þess þá hefur undanfarið átt sér stað mikið samtal varðandi aðgerðir sveitarfélagsins til skemmri og lengri tíma. Vandinn hefur hins vegar verið að óvissa er mikil og því erfitt að festa hendur á hvað sé skynsamlegast að gera, einnig hefur ríki og Samband Íslenskra sveitarfélaga verið bæði að greina stöðuna og koma með hugmyndir að mögulegum aðgerðum. Þær hugmyndir hafa verið að líta dagsins ljós undanfarið. 

Mjög er mikilvægt að halda haus í þeim aðstæðum sem nú eru uppi, bíða upplýsinga eftir því sem hægt er og taka yfirvegaðar ákvarðanir byggðar á upplýsingum bæði um hvað er að gerast og um aðrar aðgerðir t.d. hins opinbera. Hafandi þetta í huga og það að allar aðgerðir verði að vera hluti af heildarplani sem líklegt er til gagns þá var í raun ekki mögulegt að leggjast í mótun aðgerða fyrr en í síðustu viku. Í lok vikunnar þegar meirihluti hafði áttað sig á stöðunni og lagt grunn að hugmyndum hafði forseti bæjarráðs samband við H-listann og bauð listanum fulla aðkomu að þeirri vinnu sem var í gangi og framundan. Boð þetta var sett fram á laugardag eins og fram hefur komið. Forsvarsmaður H-listans taldi sig ekki geta svarað erindinu og vildi ráðfæra sig við bakland sitt. Upplýsti hann formann bæjarráðs að H-listinn myndi funda á sunnudegi og ræða málið. Formaður bæjarráðs tjáði forsvarmanni H-lista að eðlilegt væri að hann drægi tillögu listans um frestun framkvæmda til baka. Þetta var sagt með það í huga að tillaga H-lista fengi umræðu í samstarfshópnum. Enda augljóst að horfa yrði á mál heildstætt. 

Í þessu samtali var lauslega farið yfir hugmyndir meirihluta að fyrstu aðgerðum. Tillögu sem fæli í sér að samþykkja frestun eindaga fasteignagjalda lögaðila, koma til móts við íbúa hvað varðaði notendagjöld og að skipa stýrihóp sem hefði það verkefni að útfæra frekari tillögur til skemmri og lengri tíma og leggja fyrir bæjarráð og bæjarstjórn. 

Skemmst er frá því að segja að á mánudegi, daginn fyrir bæjarráðsfund, tilkynnti forsvarsmaður H-lista að niðurstaða samráðs hans við baklandið væri að hafna hugmyndum um samráð og samvinnu við meirihluta um útfærslu tillagna um viðbrögð við þeim mikla efnahagsvanda sem nú er fyrirsjáanlegur. Við þessu var, fyrir meirihlutann, lítið að gera annað en að leggjast á árar og klára tillögur að fyrstu viðbrögðum og tillögu um starfshóp sem eins og áður segir hefur það verkefni að móta heildstæðar tillögur til skemmri og lengri tíma. Tillögur sem veita okkur sem samfélagi viðspyrnu upp úr tímabundinni lægð. 

Sú bókun sem H-listanum finnst svo hörð er ekkert annað en stutt lýsing á atburðarás hvar H-listinn tók sínar ákvarðanir byggðar á sinni sýn og stefnu. Vandséð er hvernig meirihlutinn átti að vinna málið öðruvísi og ákaflega erfitt á finna fyrir því gild rök að ekki hefði átt að útskýra í fundargerð hvers vegna meirihlutinn en ekki allt bæjarráð lagði fram umræddar tillögur. 

Tillögurnar. 

Ekki verður hjá því komist að fara hér stuttlega yfir þær tillögur sem bæjarráð samþykkti og eru fyrsta viðbragð í erfiðri stöðu. 

Fyrsta aðgerðin sem samþykkt var snýr að því að veita lögaðilum (fyrirtækjum) svigrúm hvað varðar greiðslur fasteignagjalda (fasteignaskatti, sorpeyðingargjaldi, holræsagjaldi og lóðaleigu) með því að heimila, að undangenginni umsókn þar um, frestun eindaga þriggja gjalddaga. Aðgerð þessi er m.a. byggð á lagabreytingu Alþingis vegna umræddra gjalda. 

Önnur aðgerðin sem samþykkt var felur það í sér að sveitarfélagið rukkar ekki fyrir þjónustu sem ekki er veitt að ósk notanda og eða í samráði við forstöðumann þeirrar stofnunar sem veitir þjónustuna. Eðlileg og sanngjörn tilslökun en hana þarf eigi að síður að samþykkja formlega. 

Þriðja og síðasta tillagan felur í sér skipan stýrihóps sem greina skal stöðuna og skila tillögum inn til bæjarráðs og bæjarstjórnar um viðbrögð til skemmri og lengri tíma. Við tillögugerð skal á öllum tíma horft til heildarhagsmuna og metið hver afleiðing einnar aðgerðar er fyrir aðrar, með öðrum orðum að heildræn sýn sé og samhengi í aðgerðum. Hópur þessi skal að sjálfsögðu eiga gott samráð og samtal við starfsmenn sem og aðra hagaðila í samfélaginu. 

Meirihlutinn fagnar að sjálfsögðu því að H-listinn sé ánægður með framangreindar tillögur þó eins og áður hefur komið fram að meirihlutinn harmi þá ákvörðun H-listans að taka ekki þátt í mótun aðgerða á komandi vikum og mánuðum. 

Lokaorð. 

Ágæti íbúi, framundan eru tímar þar sem vinna þarf skipulega af yfirvegun en líka krafti, tímar þar sem taka þarf ákvarðanir og hugsa út fyrir þau box sem við best þekkjum. Með því stöndum við best vörð um hagsmuni samfélagsins hér í Fjallabyggð. 

Bæjarfulltrúar meirihlutans í Fjallabyggð.

Aðsent.