Á Facebooksíðu hjónanna Guðnýjar og Jóhanns á Bessastöðum í Hrútafirði má sá þessa stöðuuppfærslu sem var sett inn föstudaginn 18. mars.
Það var föstudaginn 18. mars sem Ólöf Pálsdóttir, fyrrum bóndakona á bænum var stödd í sveitinni sinni og sá þá þennan feikna Búrhval sem hafði rekið upp í fjöru hjá þeim, rétt sunnan við bæinn.
Hvalurinn var dauður og því er lítið annað að gera en að reyna að fjarlægja hann, en það getur verið flókið því samkvæmt verklagsreglum Umhverfisstofnunar eru það 6 opinberir aðilar sem koma að því er dýr á borð við hvali rekur á fjörur og það eru:
- Umhverfisstofnun
- Náttúrufræðistofnun
- Embætti yfirdýralæknis
- Hafrannsóknastofnun
- Ríkislögreglustjóri
- Samtök heilbrigðisumdæma
Í stuttu símaviðtali sagði Guðný að einfaldast hefði verið að hringja í neyðarlínuna 112 og tilkynna hvalrekann, sem hún og gerði. Starfsfólk neyðralínunnar tók þá við öllum upplýsingum sem þurfti og tilkynnti til réttra aðila.
“Á mánudaginn kemur (21. mars) kemur hingað fólk til að taka úr honum sýni og svo verður metið í framhaldinu hvort hann verður dreginn út á sjó eða hvað verður gert við hann” sagði Guðný sem var stödd á veitingastað í Reykjavík að gæða sér á góðum mat, þó ekki hvalkjöti.
Á vefsíðu Umhverfisstofnunar er hægt að nálgast tuttuguogþriggja síðna rit um hvernig skal vinna svona “hvalrekamál”.
Umhverfisstofnun: Verklagsreglur, hvalreki.