Jólaljósin í Hvanneyrarskál eins og þau litu út árið 2020 og lýstu upp bæinn á aðventunni.
Mynd: úr safni

Á morgun sunnudag taka skíðakempur í Hvanneyrarskál, jafnt eldri sem yngri, þátt í að viðhalda fallegri aðventuhefð með uppsetningu jólaljósanna.

Verkefnið hefur fylgt starfsemi Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg (SSS) um áratugaskeið og er órjúfanlegur hluti af aðventustemningu bæjarins.

Skíðafélagið er 105 ára gamalt og saga jólaljósanna endurspeglar vel þróun tímans. Fyrst var lagt af stað upp í skál með kyndla, síðar tók rafvæðingin við og þá voru það gömlu glóperurnar sem oft reyndust viðkvæmar og gáfu sig. Þá var algengt að farið væri upp með fulla vasa af varaperum til öryggis, að því er fram kemur í tilkynningu frá SSS á facebook.

Hvanneyrarskálin í jólabúning, ljósin sett upp um helgina

Skúli Jónsson á Eyri við yfirferð á ljósaseríunni í ártalinu áður en jólaljósin fara upp.
Mynd: facebook / Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg

Í dag er staðan önnur. LED-perur hafa tekið við og hafa reynst bæði endingargóðar og áreiðanlegar. Yfirleitt þarf aðeins að skipta um eina til þrjár perur á ári sem einfaldað hefur viðhaldið verulega.

Jón Andrés hjá Olís og félagar hans í kaffistofunni hafa um langt árabil haldið utan um þetta verkefni og stýrt framkvæmdinni af festu og alúð. Þeir eiga stóran þátt í að hefðin hafi haldist lifandi og að ljósin lýsi áfram upp vetrarmyrkrið í Hvanneyrarskál.