Trolli.is sendi fyrirspurn á alla veitingastaði og hótel í Fjallabyggð með þeirri einföldu spurningu hvort kæst skata yrði í boði á Þorláksmessu, 23. desember næstkomandi. Viðbrögðin voru góð og liggur nú fyrir hvar hægt verður að njóta þessarar rótgrónu jólahefðar og hvar ekki.

Á Ólafsfirði verður Höllin með kæsta skötu í boði og verður hún framreidd í formi hlaðborðs sem gestir ganga að. Verðið er 4.500 krónur fyrir fullorðna og 1.700 krónur fyrir börn. Skatan verður í boði bæði í hádeginu klukkan 12 og um kvöldið klukkan 18:30. Fyrir þá sem kjósa mildara bragð verða einnig í boði plokkfiskur, saltfiskur og siginn fiskur. Jólaleg tónlist mun hljóma í salnum og skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.

Á Siglufirði verður Síldarkaffi einnig með kæsta skötu í boði á Þorláksmessu og þar verður sett upp veglegt hlaðborð. Þar má meðal annars finna kæsta skötu, úrval af síld, harðfisk, reyktan lax, heimabakað rúgbrauð, laufabrauð, hamsatólg, kartöflur, rófur, gulrætur og harðsoðin egg. Með þessu fylgir kaffi og heimabakaðar smákökur. Hlaðborðið verður í boði í hádeginu frá klukkan 12 til 15 og kostar máltíðin 5.900 krónur á mann. Að sögn staðarhaldra verður ríkjandi ljúf og góð jólastemning á Síldarkaffi þennan dag.

Ljóst er því að bæði Höllin á Ólafsfirði og Síldarkaffi á Siglufirði verða með kæsta skötu í formi hlaðborðs á Þorláksmessu.

Þeir staðir sem hafa látið vita að þeir verði ekki með kæsta skötu í ár eru Hótelið á Ólafsfirði Hvanndalir Lodge, Pizzabakarinn og Fiskbúð Fjallabyggðar.

Einnig sendi Trolli.is fyrirspurn á fleiri aðila sem ekki hafa svarað fyrirspurninni að þessu sinni. Þar má nefna Torgið og Sigló Hótel, Hótel Siglunes og Kaffi Klöru. Ef svör berast síðar verður þeim að sjálfsögðu komið á framfæri.

Með þessu ætti flestum að vera ljóst hvar hægt verður að halda í hefðina og njóta kæstrar skötu í Fjallabyggð á Þorláksmessu.

Mynd: Smári