Leikfélag Fjallabyggðar sýnir nýtt gaman- og sakamálaleikrit eftir Guðmund Ólafsson sem einnig leikstýrir.
Áætlaðar eru 7 sýningar á leikverkinu í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Næstu sýningar á leikritinu verða miðvikudaginn 2. nóvember og fimmtudaginn 3. nóvember.
Á facebooksíðu leikfélagsins segir.
“Þeir sem ekkert hafa komið nálægt starfsemi áhugaleikfélags kunna ef til vill að halda að það sé tiltölulega einfalt fyrirbæri. Hópur af fólki kemur saman og setur upp leiksýningu. En þegar betur er að gáð er slíkur félagsskapur þó mun margslungnari. Fyrir það fyrsta er uppsetning leiksýningar flókið og oft erfitt ferli þar sem að mörgu þarf að hyggja.
Leikhópurinn í ár telur 14 leikara og hópur fólks er á bak við tjöldin og allir fá að blómstra. Innan hins lokaða ramma leikhússins hefur fólk viðurkennt frelsi til að búa til nýja heima, varpa frá sér daglegu amstri og gera sig að algjörum fíflum án eftirmála – í stuttu máli, leika sér af hjartans list.
Eitt af því sem gerir áhugaleikhúsið eins og Leikfélag Fjallabyggðar svo töfrandi er gleðin sem gjarnan ríkir í salnum yfir framgöngu leikaranna, leiktöktum afa og ömmu eða frammistöðu barnanna á sviðinu. Hér eru ekki atvinnumenn að vinna vinnuna sína heldur fólk úr hversdagslífinu að bregða sér í ný gervi. Aðstandendur sitja í salnum og skellihlæja af gleði og stolti yfir sínum manni/ konu og þannig er það í kvöld. Ég er stolt af mínu fólki sem stendur sig með miklum sóma”
Mynd/Leikfélag Fjallabyggðar