Áform um breytingar á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem lagt er til að skipunartími í tiltekin embætti verði fimm ár, í stað ótímabundinnar skipunar. Þá er lagt til að færa skipunarvald vegna þessara embætta frá dómsmálaráðherra til forstöðumanna embættanna.

„Ég tel að æviskipanir eigi ekki lengur rétt á sér nema örfá mjög mikilvæg embætti. Slík forréttindi eiga að heyra fortíðinni til. Við þurfum að færa stjórnsýsluna nær nútímanum og nær því sem er skynsamlegt.“ segir dómsmálaráðherra.

Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á þá sem nú gegna embættum út skipunartíma þeirra.

Fimm ára skipunartími í stað æviskipunar

Samkvæmt gildandi lögum skipar dómsmálaráðherra ótímabundið í embætti vararíkissaksóknara og varahéraðssaksóknara.

Í ljósi reynslunnar og með hliðsjón af markmiðum ríkisstjórnarinnar um einföldun stjórnsýslu og hagræðingar leggur dómsmálaráðherra til að skipunartími vararíkissaksóknara og varahéraðssaksóknara verði fimm ár, í stað ótímabundinnar skipunar.

Ábyrgð flutt til forstöðumanna

Ásamt því að skipa í embætti vararíkissaksóknara og varahéraðssaksóknara er ráðherra heimilt samkvæmt lögum að skipa í embætti aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum til fimm ára.

Lagt er til að ábyrgð á þeim skipunum sem hér um ræðir, þ.e. í embætti vararíkissaksóknara, varahéraðssaksóknara, aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra, verði færð frá ráðherra til forstöðumanna viðkomandi embætta. Það myndi hafa í för með sér að ríkissaksóknara yrði heimilt að skipa vararíkissaksóknara við embættið og með sama hætti yrði héraðssaksóknara heimilt að skipa varahéraðssaksóknara við sitt embætti.

Áfram yrði heimilt að skipa vararíkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, en sú skipun yrði á forræði viðkomandi lögreglustjóra í stað ráðherra ef breytingarnar ná fram að ganga.

Það er gríðarlega mikilvægt að bæði ákæruvaldið og lögreglan njóti trúverðugleika og trausts almennings. Nýleg reynsla sýnir nauðsyn breytinga hérna, það er algjörlega hafið yfir vafa. Með þessum breytingum verður ábyrgð forstöðumanna skýr en um leið tökum góð skref í átt að skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu,“ segir dómsmálaráðherra.

Áformin má nálgast í Samráðsgátt stjórnvalda og frestur til umsagnar er til og með 22. september nk.

Mynd/aðsend