Um fimmleytið barst lögreglu á Norðurlandi eystra tilkynning um 3 einstaklinga í vandræðum í sjónum við Ólafsfjörð, um 200 metrum frá landi. Tilkynnt var um að einstaklingarnir 3 hafi allir verið á brimbrettum og að það sæist rétt í kollinn á þeim í sjónum.

Mikill öldugangur var á vettvangi og mikið útsog svo að þremenningarnir áttu erfitt með að komast að landi. Þeir náðu þó að sameinast og koma sér á eitt brimbretti.

Allt tiltækt björgunarlið var kallað út en erfiðlega gekk að komast að fólkinu i sjónum. Þremenningarnir náðu að lokum að komast úr útsoginu og koma sér í land. Þeim varð ekki meint af.

Tæpri klukkustund síðar barst lögreglu á Norðurlandi eystra tilkynning um umferðarslys á Akureyri þar sem ekið var á tvo gangandi vegfarendur á gangstétt austan Glerárgötu, sunnan Grænugötu. Þeir voru báðir fluttir á Bráðamóttöku SAk. Orsök slyssins eru óljós og ekki er vitað um líðan þeirra að svo stöddu.

Óskað er eftir vitnum að óhappinu. Sérstaklega ökumanni á gráum eða ljósbrúnum smábíl sem ók norður Glerárgötu á þeim stað sem slysið varð.

Forsíðumynd: Gísli Kristinsson