Haldinn verður sérstakur íbúafundur 10. október til að kynna verkefnið fyrir íbúum Hvammstanga og Húnaþings vestra.
Sjótækni hvetur alla til að mæta á fundinn sem verður haldinn í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga og hefst kl. 18.30.
Fyrirtækið Sjótækni stendur að útsetningu á þaragarði úti fyrir Heggstaðanesi. Tilraunaverkefnið snýr að ræktun þara.
Um er að ræða tilraunaverkefni sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur veitt samþykki sitt fyrir. Í verkefnum sínum leggur Sjótækni áherslu á umhverfisvæna nálgun, nýsköpun og samstarf við rannsóknaraðila og stjórnvöld. Með tilraunaverkefninu er stigið mikilvægt skref í átt að jákvæðri nýtingu sjávarauðlinda og auknum vaxtarmöguleikum innan bláa hagkerfisins.
„Við lítum á þetta sem tækifæri fyrir Ísland til að taka skref í áttina á því að verða leiðandi í ræktun þara og nýtingu hans,“ segir Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri og stofnandi Sjótækni. „Þari hefur mikla möguleika, bæði sem matvæli og sem hráefni í líftækni og kolefnisbindingu. Með þessu verkefni sem við viljum kalla þaragarða, erum við að leggja grunninn að því að nýta þessa auðlind á ábyrgan hátt.“
Sjótækni er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sjóverktöku og annarri starfsemi sem tengist bláa hagkerfinu. Með tilraunaverkefninu styrkir fyrirtækið stöðu sína sem frumkvöðull í sjórækt og vistvænum lausnum.