Föstudaginn 16. febrúar s.l. skrifaði stjórn Leiguíbúða Dalvíkurbyggðar hses (húsnæðissjálfseignarstofnun) undir verksamning, að undangenginni tilboðsgerð, við forsvarsmenn Kötlu ehf. um byggingu á tveimur íbúðahúsum fyrir fatlað fólk við Lokastíg 3 á Dalvík. Um er að ræða annars vegar 5 íbúða raðhús með sjálfstæðri búsetu og hins vegar 2 íbúða hús með þjónusturými ætlað einnig fyrir skammtímavistun félagsmálasviðs. Samkvæmt verksamningnum eru verklok og afhending húsanna 31. október 2019.
Undirbúningur félagsins á byggingu húsanna hefur staðið yfir frá því í febrúar 2018. Leiguíbúðir Dalvíkurbyggðar hses var stofnað af sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar árið 2017 og var þá jafnframt skipað til bráðabirgða í stjórn félagsins og settur framkvæmdastjóri. Ofangreind framkvæmd er til að svara eftirspurn um búsetuúrræði fyrir fötluð ungmenni í sveitarfélaginu.
Hönnuður húsanna er Ágúst Hafsteinsson, arkitekt, hjá Form ráðgjöf ehf. á Akureyri. Á meðfylgjandi mynd með fréttinni má sjá hönnun á útliti húsanna.
Frétt og myndir: Dalvíkurbyggð