Af gefnu tilefni.
Það kemur fyrir að allt að helmingur plastefna sem berast í lúgurnar á girðingu Hirðu í Húnaþingi vestra þarf að farga því það er ekki hæft til endurvinnslu vegna þess hversu skítugt það er og blandað öðrum efnum. Það hefur einnig borið á því að einhverjir hafa komið að fullum lúgum og ákveðið að henda efnunum yfir girðinguna sem fjúka svo um víðan völl og geta endað úti í náttúrunni eða í hafinu.
Sveitarfélagið beinir þeim vinsamlegu tilmælum til íbúa og fyrirtækja að koma með endurvinnsluefni á opnunartíma Hirðu og setja beint í gámana á planinu. Það sparar einnig gríðarlega mikla vinnu starfsmanna þegar komið er með efnin inn á planið á opnunartíma í stað þess að þeir þurfi að ferja efnið úr lúgunum yfir í gámana og flokka allt það óæskilega frá.
Lúgurnar ættu bara að notast við þær aðstæður þegar fólk getur ekki komið því við að koma á opnunartíma og þarf að koma frá sér efni. Spörum lúgurnar eins og við getum og a.m.k vöndum flokkun í þær svo við getum haldið áfram að halda úti þessari góðu þjónustu. (plastefni sem komið er með í lúgur væri gott að hafa í glærum plastpokum)
Á planinu eru tveir pressugámar fyrir endurvinnsluefni annar er fyrir plastefni og hinn er fyrir pappa og pappír/blöð. Aðstæður eru góðar þar til að losa sig við efnin, en keyrt er upp á rampinn og hent beint ofan í gámana á vinstri hönd. Það þarf t.d ekki að brjóta saman pappakassa áður en þeim er hent í pressugáminn og því sparar það líka notendum vinnuna. Þeir sem ekki vilja keyra upp á rampinn geta keyrt meðfram gámunum vinstra megin við rampinn og hent beint þaðan í gámana. Starfsmaður Hirðu leiðbeinir og aðstoðar notendur Hirðu við flokkun sé þess óskað. Allt endurvinnsluefni er hægt að koma með GJALDFRÍTT.
Húnaþing vestra á langa og góða sögu um flokkun úrgangs og flestir eru að vanda sig og eru virkilega til fyrirmyndar við flokkun úrgangs, höldum því áfram og verum öll saman í þessu.