Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, er með sextán frumvörp á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi haustþing. Frumvörpin hafa þýðingu fyrir fjölda fólks um land allt. Má þar nefna:
- Ellilífeyrisþega
- Örorkulífeyrisþega
- Fólk á leigumarkaði
- Fatlað fólk
- Fólk sem tekur hlutdeildarlán
- Einstaklinga sem hefur verið gert að sæta öryggisráðstöfunum
- Innflytjendur
- Atvinnuleitendur
- Foreldra í fæðingarorlofi
„Ríkisstjórnin hefur nú þegar ráðist í umfangsmiklar breytingar til að bæta kjör þeirra verst settu. Við erum rétt að hefja þá vegferð sem stjórnarflokkarnir sömdu um við stjórnarmyndunarborðið og metnaðarfulla þingmálaskráin okkar sýnir að við erum hvergi nærri hætt,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Listi yfir þingmálin
Frumvörpin sjálf og lýsingu á þeim má nálgast hér:
1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (launavísitala)
Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að örorku- og ellilífeyrir hækki árlega til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Endurflutt.
2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús (dýrahald)
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fjöleignarhús sem varða dýrahald þannig að samþykki annarra eigenda fyrir hunda- og kattahaldi sé ekki nauðsynlegt. Endurflutt.
3. Frumvarp til laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Frumvarpið felur í sér að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni. Markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis. Markmiðið er einnig að auka virðingu fyrir fötluðu fólki. Endurflutt.
4. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum (almenn skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá)
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á húsaleigulögum þannig að skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði almenn í stað þess að hún taki eingöngu til þeirra sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis. Með því fást áreiðanlegri og heildstæðari upplýsingar um leigumarkaðinn og einstaka hluta hans, lengd leigusamninga, þróun húsaleigu, búsetu í óviðunandi húsnæði og fleira sem nauðsynlegt er til að undirbyggja frekari stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda í málaflokknum, sem og eftirlit með svartri leigustarfsemi. Endurflutt.
5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris og aldursviðbót)
Með frumvarpinu er lögð til hækkun á frítekjumarki ellilífeyris þannig að frítekjumark ellilífeyris hækki í áföngum á næstu fjórum árum og verði 60.000 krónur á mánuði. Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting að aldursviðbót falli ekki niður þegar örorkulífeyrisþegi nær ellilífeyrisaldri. Aldursviðbótin fylgi þeim sem eiga engin eða takmörkuð atvinnutengd réttindi til ellilífeyris. Einnig verða lagðar til nokkrar breytingar í tengslum við innleiðingu á nýja örorkulífeyriskerfinu.
6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (eingreiðsla)
Með frumvarpinu er lagt til að einstaklingar sem fá greiddar örorku- eða endurhæfingarlífeyri fái eingreiðslu í desember sem skuli teljast skattfrjáls. Kveðið verði á um að eingreiðslan leiði ekki til skerðingar annarra greiðslna. Gert er ráð fyrir sambærilegri greiðslu til tekjulágra ellilífeyrisþega.
7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi (fyrirkomulag greiðslna)
Með frumvarpinu er lagt til að breytingar á fjárhæðum greiðslna til foreldra í fæðingarorlofskerfinu miði ekki lengur við fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur heldur nái slíkar breytingar til allra foreldra sem eiga ónýttan rétt innan kerfisins þegar breytingarnar taka gildi. Gert er ráð fyrir að sambærilegar breytingar verði gerðar á lögum um sorgarleyfi.
8. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar starfsemi Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Með frumvarpinu er lagt til að sameina starfsemi Skipulagsstofnunar við starfsemi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þannig að úr verði öflug stofnun húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála. Breytingin er liður í að tryggja öflugri og skilvirkari stjórnsýslu skipulags-, mannvirkja- og húsnæðismála.
9. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar (stytting bótatímabils og fleira)
Gert er ráð fyrir að hámarkslengd þess tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar verði stytt. Einnig er gert ráð fyrir að lágmarksskilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta verði breytt. Þá er meðal annars gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar til að einfalda stjórnsýslu atvinnuleysistrygginga.
10. Frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn
Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Með frumvarpinu verður komið á lagaumgjörð þegar einstaklingar hafa verið dæmdir eða úrskurðaðir til að sæta öryggisráðstöfunum. Markmið frumvarpsins er að skýra framkvæmd og ábyrgð þeirra opinberu aðila sem koma að málum og bæta réttarstöðu þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.
11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Markmið breytinganna er meðal annars að skerpa á hlutverki réttindagæslumanna og sýslumanna. Þá er lagt til að úrskurðarnefnd velferðarmála taki við því hlutverki að fjalla um undanþágur frá banni við beitingu nauðungar og banni við fjarvöktun.
12. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál og lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (hlutdeildarlán og hlutdeildarlánasjóður)
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi hlutdeildarlána til að húsnæðisstuðningskerfið stuðli enn frekar að auknu framboði íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði. Hlutdeildarlán verði fest í sessi sem varanlegt úrræði fyrir fyrstu kaupendur og framkvæmdin gerð skilvirkari. Einnig er lagt til að stofnaður verði sérstakur Hlutdeildarlánasjóður sem hafi það hlutverk að fjármagna hlutdeildarlán.
13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki (einföldun byggingarreglugerðar og endurskoðun byggingareftirlits)
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að tryggja að lögin veiti heimild til að setja hnitmiðaða, árangurs- eða markmiðsdrifna byggingarreglugerð og innleiða áhættumiðað, gagnadrifið byggingareftirlit og tryggja betur neytendavernd vegna fasteignagalla.
14. Frumvarp til laga um breytingar á skipulagslögum (raflínuskipulag)
Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á skipulagslögum með það að markmiði að styrkja enn frekar þá sérstöku málsmeðferð sem mælt er fyrir um í lögunum í tengslum við lagningu raflína í flutningskerfi raforku.
15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir (fyrirkomulag stofnframlaga)
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi almennra íbúða til að húsnæðisstuðningskerfið stuðli enn frekar að auknu framboði leiguíbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði. Jafnframt verði framkvæmd úthlutunar stofnframlaga endurskoðuð til að einfalda ferla og auka skilvirkni.
16. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2026–2029
Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er lögð fram til fjögurra ára í senn á grundvelli laga um málefni innflytjenda og nær gildandi áætlun til ársloka 2025. Verkefni áætlunarinnar miða almennt að því að ná fram markmiðum fyrrnefndra laga og stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.
Mynd/Hari