Eftir stutta útgáfupásu, sem nýtt var til að semja nýja plötu, kynnir tónlistarkonan Inki (Ingibjörg Friðriksdóttir) fyrsta singúlinn af væntanlegri plötu sinni Locally Grown. Lagið ber heitið Islander (Eyjaskeggi) og markar upphaf nýrrar plötuútgáfu og lítillar kynningarherferðar fyrir Airwaves-tónleika hennar í nóvember, þar sem hún frumflytur efni af plötunni.

Lagið “Islander” er komið í spilun á FM Trölla.

Í Islander mætast útþrá og órofin tengsl við Ísland. Á plötunni dregur Inki fram sögur úr eigin nærumhverfi og umbreytir hversdagslegum augnablikum í stórar frásagnir – allt frá spákonu sem ráðleggur að hætta að velta sér upp úr framtíðinni, til óvæntra samtala við hverfisfyllibyttuna.

Grípandi laglína leiðir hlustandann inn í tilraunakenndan hljóðheim, en strengjaleikur Þórdísar Gerðar Jónsdóttur, Karls James Pestka og Sigrúnar Harðardóttur gefur laginu hlýjan og hugljúfan blæ.