Tónlistarkonan Inki heldur áfram að gefa út nýja tónlist af væntanlegri plötu sinni Locally Grown.
Trölli.is hefur áður fjallað um fyrstu útgáfur plötunnar, Islander og Retrograde, en nú er komið að nýju lagi sem ber titilinn I Think We Would Have Been Friends.

Lagið kemur út í tveimur útgáfum – Fyrir Rökkur og Fyrir Sólarupprás – og heldur áfram að sýna fjölbreyttan og tilfinningaríkan hljóðheim Inki.

„Ég skrifaði þetta lag um ömmusystur mína, sem var mjög litríkur karakter og óhrædd við að fara eigin leiðir,“ segir Inki.
„Ég hef hlustað á sögur um hana í gegnum tíðina, en textinn byggir líka á frásögnum úr minningargreinum um hana – hvernig hún dansaði upp á borðum, eldaði aldrei fyrir færri en sextán og gekk um með hamar í handtöskunni – því, af hverju ekki?“

I Think We Would Have Been Friends er hlýtt, persónulegt og hugljúft lag sem fangar bæði húmor og hjartnæma fortíðarblæinn sem einkenna verk Inki.

🎧 Lagið má finna á öllum helstu streymisveitum.