Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Rúnbrá vegna innköllunar á heimagerðri ungbarna-tanntöku-hringlu fyrir börn.

Hringlan er með viðar perlum, gíraffa og með hvítri plast bjöllu á. Plastið í bjöllunum er gallað þar sem það er þynnra en það á að vera. Hætta er á að barn geti gleypt bjölluna eða hluta úr henni ef hún skyldi klofna við högg/álag/þrýsting. Allar hringlur án bjöllu eru í lagi.

Hringlur sem voru framleiddar frá september til desember 2019 geta innihaldið gallaða bjöllu. Samkvæmt tilkynningunni frá Rúnbrá eru sambærilegar hringlur sem framleiddar voru fyrir september 2019 í lagi.

Í tilkynningunni eru forráðamenn barna sem eiga þessa hringlu hvattir til að hætta notkun hennar og skila henni til Rúnbrá.