Innlausnarmarkaður fyrir greiðslumark sauðfjár verður haldinn í byrjun nóvember 2021. Verð fyrir innleyst greiðslumark er núvirt and­virði beingreiðslna næstu tveggja almanaksára, kr. 13.396,- pr. ærgildi.
Það greiðslumark sem er inn­leyst er jafnframt boðið til sölu á innlausnarverði.

Framleiðendur sem eiga 100 kindur eða fleiri og eru með ásetningshlutfallið 1,0 eða hærra skulu hafa forgang að 100% þess greiðslumarks sem er í boði á markaði, þar af 60% til þeirra sem eiga 200 kindur eða fleiri og hafa ásetningshlutfallið 1,6 eða hærra. Það skiptist hlutfalls­lega milli aðila sem hljóta forgang í samræmi við það magn sem þeir óskuðu eftir að kaupa.

Hver framleiðandi getur ekki óskað eftir ærgildum umfram þau sem tryggja honum óskertar bein­greiðslur í samræmi við fjárfjölda og ásetningshlutfall.

Það greiðslumark sem ekki er úthlutað til fram­leið­enda í forgangshópi skal boðið öðrum umsækjendum. 

Hver framleiðandi getur ekki fengið hærri úthlutun en sem nemur því að heildarfjöldi ærgilda eftir úthlutun fari ekki yfir 600.

Með beiðni um inn­lausn á greiðslumarki skal fylgja veðbókarvottorð ásamt staðfestingu á eignarhaldi að lögbýli og samþykki ábúanda, sam­eigenda og veðhafa í lögbýlinu. Kaupandi greiðslumarks nýtir greiðslumark frá og með 1. janúar 2022.

Tilboðum um kaup og sölu greiðslumarks skal skila rafrænt á afurd.is. Opnað hefur verið fyrir tilboð. 

Tilboðsfrestur er til og með 1. nóvember nk.

Mynd: istock