Það er alltaf gott að koma til Íslands eftir vetrardvöl á Kanarí, ég fæ ávalt góðar og hjartahlýjar móttökur af mínum börnum og er knúsaður í bak og fyrir. Mamma þeirra tekur líka vel á móti mér enda er hún minn besti vinur. Það er gott að heimsækja bræður mína i vinnuna þeirra og kíkja á barinn sem systir mín rekur. Svo er auðvitað voða gott að koma heim til Sigló og knúsa mömmu og pabba og systir mína sem þar býr einnig.
Og þar með er þetta góða nú flest upptalið þar sem ískaldur veruleiki veðrabrigða og verðlags fer að gera vart við sig. Fimm gráður í júlí og rigning er eitthvað sem er ekki alveg það ákjósanlegasta og sólardagurinn um daginn hverfur í þokuna. En það hverfur meira en það. Peningar hverfa einsog dögg fyrir sólu og stundum finnst mér ég vera töframaður sem kann bara eitt trikk .. að láta peninga hverfa.
Það er vart búandi á mínu ástkæra landi. Allt er svo dýrt. Það er svo kalt.
Það er varla keyrandi um þjóðvegi landsins vegna ferðamanna sem margir hverjir virðast alls ekki vita hvert þeir eru að fara og eru hægjandi á sér trekk í trekk og jafnvel stopp á þjóðvegi eitt þar sem þeir sáu eitthvað markvert sem þótti tilvalið að mynda.
Í höfuðborginni situr mikill maður með þrjú einkabílastæði í miðborginni og hans verður minnst sem mannsins sem rústaði borginni. Hann dreymir um stórborg og langar rosalega að borgin hans verði stórborg. Hann hefur séð myndir frá öðrum stórborgum þar sem fólk er á hjóli og honum finnst það flott svo nú eiga allir að hjóla í borginni hans enda er hvergi hægt að leggja bílum lengur. Miðborgin er dáin, hún er grá og sálarlaus. Fyrir gróðann af öllum ferðamönnunum þurfti að fórna einhverju og einhverjum fannst tilvalið að selja sálina og sjarmann í miðborginni fyrir cash.
Það er svo mikil stéttaskipting í okkar fámenna þjóðfélagi að nokkrir eiga allt og hinir ekki neitt. Og samkvæmt þeim sem eiga allt er þetta bara væll í hinum sem eiga ekki neitt. Það er allt í himnalagi.
Það grasserar svo mikil spilling á Íslandi að sjálfur Berlusconi snýr sér í gröfinni og þarf nú mikið til að það gerist. Stjórn landsins er skipuð yfirmáta hrokafullu og gjörsamlega veruleikafirrtu fólki sem telur að Ísland sé bezt í heimi. Fjármálaráðherra fékk launahækkun sem honum tókst á einhvern hátt að sannfæra okkur um að þetta væri í raun launalækkun … já þú last rétt … Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði þetta.
Og á meðan erum við hin að rífast á samfélagsmiðlum um allt og ekkert og köllum hvort annað öllum illum nöfnum, jafnvel fólk sem við höfum aldrei hitt, aldrei séð og aldrei vitað af fyrr en helvítið kommentaði skoðun sem ég er ekki sammála.
Ég elska Ísland og elska að vera íslendingur og það er sárt að sjá og heyra að það er allt í rugli hvert sem litið er.
En alltaf er jafn gott að finna hressandi norðanstorminn í andlitið þegar ég geng út úr Leifsstöð en það er líka voðalega gott að setjast um borð í flugvél og fara til Kanarí.