Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Vængjum Júpiters í gær í 20. umferð 3. deildar karla á gervigrasvellinum við Egilshöll.

Á Fotbolti.net segir þetta um leikinn í gær.

“KF hikstaði í toppbaráttunni í 3. deildinni í dag er liðið gerði 2-2 jafntefli við Vængi Júpiters í 20. umferð deildarinnar.

Alexander Már Þorláksson kom KF yfir á 15. mínútu áður en Brynjar Gauti Þorsteinsson jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks. Alexander skoraði 24. mark sitt í deildinni á 66. mínútu og kom KF yfir en fjórum mínútum síðar fóru tvö rauð spjöld á loft.

Geir Kristinsson og Jordan Damachoua voru reknir af velli og því aðeins tíu í hvoru liði. Halldór Ingvar Guðmundsson, markvörður KF, var svo rekinn af velli á 88. mínútu og jafnaði Aron Páll Símonarson metin fyrir Vængina. Lokatölur 2-2.

KF er í öðru sæti með 45 stig þegar tvær umferðir eru eftir en Kórdrengir eru á toppnum með 51 stig. KV á tölfræðilega möguleika en liðið er fjórum stigum á eftir KF í þriðja sætinu. Vængirnir eru með 38 stig í 4. sæti”.

 

Mynd: Guðný Ágústsdóttir