Skapandi íslenskuáfangi með áherslu á efni fyrir börn er nú kenndur í fyrsta sinn í Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Í áfanganum framleiða nemendur margmiðlunarefni sem inniheldur stuttar sögur, ævintýri og fræðsluefni á íslensku sem síðan verður gert aðgengilegt á Youtube krakkarás fyrir yngstu áhorfendurna.

Í áfanganum er því verið að blanda saman skapandi skrifum og upplýsingatækni. Nemendur þurfa bæði að kynna sér frásagnaraðferðir og framsetningu í barnabókmenntum og þekkja helstu verkfæri til myndvinnslu, hljóðvinnslu og gerð margmiðlunarefnis. Einnig er áhersla á að greina efni af neti og samfélagsmiðlum á gagnrýninn hátt og áhrif þess á neytendur á mismunandi aldri. En síðast en ekki síst að framleiða uppbyggilegt efni fyrir yngstu netverjana.

Það eru Inga Eiríksdóttir upplýsingatæknikennari og Kolbrún Halldórsdóttir íslenskukennari sem leiða þetta spennandi verkefni.

Það er mikilvægt að koma íslenskunni inn í tölvurnar ef svo má segja, gefa börnum kost á vönduðu fræðslu- og afþreyingarefni á íslensku á netinu og er þessi áfangi liður í þeirri viðleitni.