Þessa helgi fór fram hið árlega Siglómót Benecta í blaki.

Til leiks mættu 32 lið héðan og þaðan af landinu. Á föstudaginn var spilað í íþróttahúsinu á Siglufirði en á laugardaginn í báðum íþróttahúsum sveitarfélagsins.

Mótinu lauk svo með verðlaunaafhendingu í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og hátíðarkvöldverði og skemmtun á Kaffi Rauðku.

Þetta var þriðja stóra íþróttahelgin í röð í Fjallabyggð.

Fyrst var það hin glæsilega Fjarðarganga Skíðafélags Ólafsfjarðar, um síðustu helgi fóru svo fram á Ólafsfirði tvær keppnir í Íslandsmótaröðinni í snocross á vélsleðum undir stjórn Vélsleðafélags Ólafsfjarðar og um helgina var það blakið sem er allsráðandi.

Á þessu má sjá að öflugt íþróttalíf er ekki aðeins gott til að bæta heilsu heldur ekki síður til að styrkja ferðamannaiðnaðinn í sveitarfélaginu. Í tengslum við alla þessa viðburði hefur selst fjöldi gistinátta, ótal máltíðir á veitingastöðum og viðskipti í verslunum tekið kipp. Öflugt íþróttalíf er því okkur öllum í hag.

Heimild/Frétta- og fræðslusíða UÍF
Mynd/Vefmyndavél Trölla.is