Tónlistarmaðurinn Ízleifur hefur sent frá sér lag sem ber heitið Vera hann. Lagið sömdu skapandi tónlistarmenn: Ragnar Kjartansson, Þorvaldur Gröndal, Marteinn Hjartarson, Viðar Hákon Söruson, Gísli Galdur og Hlynur A. Valdimarsson og er komið í massa spilun á FM Trölla.
Ízleifur hefur á undanförnum árum skapað sér sérstöðu í íslensku tónlistarlífi með hugleiðandi textum og sterkri fagurfræði. Hann hefur áður unnið með listamönnum á borð við GDRN og Daniil, og haldið hlustunarviðburði þar sem tónlist og myndræn upplifun mætast – meðal annars í Þjóðleikhúsinu á dögunum.
Vera hann, sem fangar bæði hugrekki og sjálfsleit í innblásnum hljóðheimi fjallar um að standa með sjálfum sér, þora að vera sá sem maður raunverulega er, og að blása lífi í eldana sem slokkna stundum á leiðinni.
Við fyrstu hlustun gæti margur kannast við hljóminn – og það er engin tilviljun. Vera hann byggir á lagi hljómsveitarinnar Trabant, The One, sem kom út árið 2006 á vegum breska plötufyrirtækisins Southern Fried Records. Upprunalega lagið naut mikilla vinsælda bæði hér heima og erlendis og er eitt af þeim lögum sem mótuðu íslenskan rafpopptón á sínum tíma.
Í nýju útgáfunni sameinast kraftur fortíðar og nýr blær. Í höfundahópnum eru auk Ízleifs upprunalegir meðlimir Trabant: Ragnar Kjartansson, Þorvaldur Gröndal, Viðar Hákon Söruson, Gísli Galdur Þorgeirsson og Hlynur A. Valdimarsson.
Útkoman er stílhrein og áferðarfalleg túlkun sem heiðrar upprunalega lagið en setur það í nýjan búning – þar sem raddbeiting, texti og stemning Ízleifs gefa verkinu nýja merkingu.
🎧 Vera hann er fáanlegt á öllum helstu streymisveitum.