Í nótt kl. 03:50 var jafndægur að vori. Forsíðumyndin sem Ólafur Haukur Kárason tók á Siglufirði í gær ber ekki með sér að vorið sé í nánd, en öll él birtir upp um síðir.

Á vorjafndægrum eru dagur og nótt ekki alveg jafnlöng. Við njótum örlítið meiri dagsbirtu en myrkurs, mörgum sennilega til mikillar ánægju.

Í almanökum er sólin skilgreind sem punktur, þótt hún sé skífa. Tímasetning sólarupprása og sólsetra er þar af leiðandi gefin upp sem sá tími þegar miðja sólskífunnar skríður yfir sjóndeildarhringinn en ekki þegar efri brún hennar birtist okkur fyrst eða sú neðri hverfur sjónum okkar. Þetta verður til þess að fjölga birtumínútum örlítið við sólarupprás og sólsetur.

Lofthjúpur Jarðar verkar auk þess eins og linsa sem lyftir sólinni upp um hálfa gráðu eða eitt sólarþvermál á himninum. Fyrir vikið flýtir ljósbrot lofthjúpsins sólarupprásinni um fáeinar mínútur og seinkar sólsetrinu sömuleiðis. Þess vegna er sólin í raun sest skömmu áður en við sjáum hana hverfa undir sjóndeildarhringinn.

Af þessum tveimur ástæðum eru dagur og nótt ekki nákvæmleg jafn löng á jafndægrum.

Mynd: Ólafur Haukur Kárason
Heimild: stjörnufræðivefurinn