Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í Fjallabyggð á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Á Siglufirði verður hátíðarathöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar við Siglufjarðarkirkju. Að henni lokinni ætlum við að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi, konfekt og hluta af Lýðveldiskökunni. Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar verður í Einingu-Iðju á Siglufirði og í ár mun UMF Glói endurvekja 17. júní hlaupið á Siglufirði fyrir krakka á fædd 2006-2013.
Að vanda verður sýning í Kompunni í Alþýðuhúsinu en það er hún Kristín Gunnlaugsdóttir sem sýnir verkin sín og svo verður opið á Ljóðasetri Íslands, Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica og á Þjóðlagasetrinu.

Við Menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði verður glæsileg hátíðardagskrá þar sem í boði verða m.a. leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, stærsta vatnsrennibraut landsins opin (Skíðastökkpallurinn) og margt fleira fyrir alla fjölskylduna.

Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman en í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður gestum boðið upp á 4. metra Lýðveldisköku við Tjarnarborg í boði Landssambands bakarameistara og forsætisráðuneytisins.

 

Dagskráin er öll aðgengileg hér (pdf)