Jólaæfing var hjá slökkviliðsmönnum í Fjallabyggð á miðvikudagskvöldið síðastliðið.

Reykkafarar fengu það hlutverk að fara í leit í erfiðu rými þar sem takmarkið var að finna smáhluti. Þá æfðu allir slökkviliðsmenn notkun á slökkvitækjum og eldvarnarteppi sem eiga að vera til á hverju heimili.

Nú fyrir jólin er einmitt eldvarnarátak í gangi þar sem fólk er beðið um að fara yfir eldvarnir heimilisins. www.hms.is/eldklar

Æfingin gekk vel og skiluðu reykkafarar 100% árangri í leit sinni. Sama má segja um aðferðir til þess að slökkva eld með mismunandi gerðum slökkvitækja og eldvarnarteppi.

Æfingin var jafnframt síðasta æfing Slökkviliðs Fjallabyggðar á þessu ári en í janúar hefst nýtt æfingaár.